Vangaveltur um hernaðaríhlutun „brjálæði“

12.08.2017 - 05:40
epa06132257 Venezuelan Defense Minister Vladimir Padrino Lopez attends the second plenary session of the National Constituent Assembly, in Caracas, Venezuela, on 08 August 2017.  EPA/Miguel Gutiérrez
 Mynd: EPA  -  EFE
Vangaveltur Donalds Trumps, Bandaríkjaforseta, um mögulega hernaðaríhlutun Bandaríkjamanna í Venesúela eru „brjálæði“ segir varnarmálaráðherra Venesúela, Vladimir Padrino. „Þessi ummæli eru brjálæði og vitna um stórkostlegt ofstæki,“ sagði Padrino í viðtali í venesúelska ríkissjónvarpinu á föstudag.

Voru þetta viðbrögð ráðherrans við orðum sem Trump lét falla á fréttamannafundi í New Jersey fyrr í gær, þar sem hann sagði Bandaríkin hafa „margar leiðir varðandi Venesúela, þar á meðal mögulega hernaðaríhlutun, ef nauðsyn krefur.“ 

Padrino sagði að „ofstækisfull elíta“ væri við völd í Bandaríkjunum og hann vissi ekki hvað væri að gerast og hvað kæmi til með að gerast í henni veröld, á meðan sú væri raunin. Hins vegar, sagði varnarmálaráðherrann, sem jafnframt er æðsti stjórnandi hersins, væri hann alveg viss um að hvort tveggja herinn og almenningur í landinu myndu fylkja sér í fremstu víglínu til að verja hagsmuni og fullveldi Venesúela ef á þyrfti að halda. 
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV