Vandinn við varðveislu nýmiðla

12.01.2017 - 16:04
Við lifum á tímum þar sem tækniframþróun er svo ör að við skynjum hana varla. Listin er í eðli sínu forsjál og fljót að bregðast við – og forverðir og skrásetjarar þurfa þess vegna að vera á tánum líka.

„Við þurfum að horfast í augu við það að tæknin sem listamenn nota til að miðla verkum eða vinna verk inn í úreldist – eins og öll tækni,“ segir Ólöf Kristín Sigurðardóttir, safnstjóri Listasafns Reykjavíkur. „Óneitanlega hefur miðillinn alltaf áhrif á innihaldið.“

Söfn geta því staðið frammi fyrir ákveðnum vanda þegar taka á til sýningar verk sem styðjast við afspilunartækni sem hefur úrelst. Hvernig er best að varðveita nýmiðla? Skiptir upphaflegi miðillinn máli? Verða myndbönd sem tekin eru upp á VHS-spólur að vera sýnd í túbusjónvarpi? Og ef varðveita á VHS-spólur og segulbönd, fer þá starf forvarðarins líka að snúast um að gera við myndbandstæki?

„Það er um að gera að geyma sem mest svo framtíðin hafi úr sem mestu að spila,“ segir Ólöf. „Við þurfum að herða okkur aðeins í því.“

Rætt var við Ólöfu Kristínu Sigurðardóttir, safnstjóra Listasafns Reykjavíkur, í Víðsjá.

Mynd með færslu
Halla Þórlaug Óskarsdóttir
dagskrárgerðarmaður
Víðsjá
Þessi þáttur er í hlaðvarpi