„Vandinn stærri en nokkru sinni fyrr“

14.01.2016 - 21:18
Mynd með færslu
Anna Gunnhildur Ólafsdóttir  Mynd: Ólafur Már Svavarsson
Stjórnvöld verða koma á fót búsetuúrræði fyrir fíkla með geðraskanir undir eins, að mati framkvæmdastjóra Geðhjálpar. Sumir í þessum hópi séu hættulegir sjálfum sér og öðrum ef þeir eru án eftirlits. Vegna niðurskurðar hafi vandinn aldrei verið jafnmikill og nú.

 

Mikið hefur verið skorið niður á sviði geðheilbrigðismála síðustu misserin. Læknar þar hafa lýst áhyggjum sínum af ástandinu og segja sjúklinga útskrifaða of snemma og biðlista of langa. Þá vanti langtímaúrrðæði fyrir þá sem geti haft sjálfstæða búsetu undir eftirliti.

Tæplega helmingur allra 14 sjúklinga á réttar- og öryggisgeðdeildum Landspítala er búinn að ná nægilega góðri heilsu til að útskrifast af spítalanum en ónæg búsetuúrræði koma í veg fyrir það. Viðeigandi húsnæði fyrir þessa einstaklinga er ekki fyrir hendi. Aðrir sem þurfa á þjónustunni að halda komast ekki að á meðan.

Geðhjálp sinnti 770 erindum á síðasta ári en árið þar á undan voru þau 500. Anna Gunnhildur Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri Geðhjálpar segir niðurskurð síðustu ára birtast víða. Um þriðjungur þeirra sem koma í ráðgjöf séu aðstandendur, sem oft eru sjálfir orðnir óvinnufærir af álagi og vanmætti gagnvart vanlíðan sinna nánustu.

„Við höfum til dæmis verið að líta á eftir þvi að það verði byggt upp úrræði fyrir allra veikustu einstaklingana og erum í rauninni búin að bíða í heilt ár eftir efndum í því sambandi og sjáum nú að það er verið að setja fram grófar tillögur um búsetuúrræði fyrir ca 20 manns af öllu landinu sem eru verulega veikir og margir eru með tvíþætta greiningu. Þeir eru með geðgreininug og eru svo líka í vímuefnavanda. Þeir þurfa öryggisvörslu en þeir þurfa líka heimili. Þeir þurfa hjálp við lyfjagjöf og gæslu svo að þeir skaði ekki sjálfa sig og jafnvel aðra því miður.“

Til greina komi að byggja nýtt húsnæði en það taki 2-3 ár.

„En ég held að eftir því getum við bara hreinlega ekki beðið. Einhvers konar milliúrræði þarf að fást.“

 

Mynd með færslu
María Sigrún Hilmarsdóttir
Fréttastofa RÚV