Vænta góðs af nýju samstarfi

17.02.2016 - 13:04
Mynd með færslu
 Mynd: Ómar Hauks  -  Borgarbyggð
Gengið hefur verið frá meirihlutasamstarfi Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks í sveitarstjórn Borgarbyggðar. Oddviti Sjálfstæðismanna segir að mikill samhljómur hafi verið í viðræðunum og væntir góðs af nýju samstarfi.

Viðræður Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks hófust þegar slitnaði upp úr meirihlutasamstarfi Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks á fimmtudaginn. Björn Bjarki Þorsteinsson segir að eftir góðar viðræður í vikunni hafi meirihlutasamstarfið verið handsalað í gærkvöldi: „Það var mikill samhljómur í því hvaða áhersluatriðum við ætluðum að vinna útfrá. Það hefur svosem ekki verið mikill málefnalegur ágreiningur í sveitarstjórn Borgarbyggðar svo þetta samtal gekk bara mjög vel og við væntum góðs af því samstarfi sem er að fara af stað.“

Í meirihluta verða þrír sveitarstjórnarfulltrúar frá Sjálfstæðisflokki og tveir frá Samfylkingu. Í minnihluta verða þrír fulltrúar Framsóknarflokks og einn frá Vinstri grænum. Nýr meirihluti gerir ráð fyrir að vinna áfram að aðhaldsaðgerðum en Björn Bjarki segir að einnig hafi verið rædd stefna í skólamálum og áherslur í umhverfis- og skipulagsmálum. Meirihlutinn áformar að auglýsa eftir nýjum sveitarstjóra á næstu dögum og áætlað er að birta áform nýrrar sveitarstjórnar á föstudaginn, ásamt því að kjósa í embætti sveitastjórnar.