Útlit fyrir fínt helgarveður

10.02.2016 - 07:11
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Vetrarlegt verður um að litast áfram í dag, dálítil él norðantil en bjartviðri um landið suðvestanvert. Í hugleiðingum veðurfræðings um veðurhorfur í dag og í kvöld kemur fram að það bæti í vindi sunnantil þegar líður á daginn með snjókomu.

Suðaustlæg átt í nótt og á morgun, 8 til 15 metrar á sekúndu, hvassast um landið austanvert. 

Snjókoma verður suðaustanlands og sums staðar talsverð snjókoma. Í öðrum
landshlutum verða él af og til og á það einnig við um höfuðborgarsvæðið.
Það verður fremur svalt í dag, en dregur síðan úr frosti og verður víða frostlaust við sjávarsíðuna á morgun, en vægt verður frost til landsins.

Helgin lítur vel út, einkum sunnudagur, hægur vindur og sólríkt, en kalt í veðri. Á mánudag verður síðan mikil umbreyting í veðrinu, ört vaxandi suðaustan átt með talsverðri vætu og hlýnandi veðri. 

Færð á vegum

 

Hálkublettir eru í Þrengslum en Hringvegurinn er auður á Suðurlandi en nokkur hálka er þar á öðrum vegum.

Snjóþekja er á Holtavörðuheiði en þæfingur er á Fróðárheiði annars er víða hálka á Vesturlandi og Vestfjörðum og sums staðar er snjóþekja og skafrenningur.

Það éljar eða snjóar með köflum á Norðurlandi og þar er snjóþekja eða hálka víðast hvar en ófært er  Þverárfjalli og þungfært á Hálsum og Sandvíkurheiði.

Mokstur stendur yfir á Austurlandi en þar hefur snjóað nokkuð í nótt og er því þungfært á Fjarðarheiði og á Oddsskarði, snjóþekja er á Fagradal og með ströndinni í Breiðdalsvík.

Með ströndinni Suðaustanlands er hálka.

 

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV