Útlendingar í fyrsta sinn í meirihluta

08.01.2016 - 12:24
Mynd með færslu
 Mynd: Síldarminjasafn Íslands
Gestir Síldarminjasafns Íslands á Siglufirði hafa aldrei verið fleiri en í fyrra. Mestu munar um fjölgun erlendra ferðamanna sem eru í fyrsta sinn í meirihluta þeirra sem skoðuðu safnið. Gestirnir voru rúmlega 22 þúsund talsins í fyrra, 2.500 fleiri en árið 2014. Aukningin nemur því nær þrettán prósentum milli ára.

„Við sjáum mikla aukningu í fjölda erlendra ferðamanna,“ segir Anita Elefsen, rekstrarstjóri Síldarminjasafnsins. Þeir voru fimm þúsund fleiri í fyrra en árið áður og hlutfall þeirra fór úr 48 prósentum gestafjöldans 2014 í 52 prósent 2015. Hún telur að nokkrar ástæður skýri þá fjölgun sem orðið hefur á gestum safnsins síðustu ár. Þar á meðal að mikil uppbygging sé í gangi og fleiri skemmtiferðaskip komi til Siglufjarðar en áður.

„Við reynum markvisst að markaðssetja safnið fyrir erlenda ferðamenn,“ segir Anita. Líklega viti flestir Íslendingar af tilvist og starfsemi safnsins og þó auglýst sé fyrir þann markhóp sé í meira mæli en áður herjað á nýja hópa mögulegra. 

52 prósent gesta safnsins í fyrra komu á eigin vegum, 38 prósent komu í hópferðum og tíu prósent komu á einstaka viðburði, svo sem síldarsaltanir og tónleika. Meirihluti þeirra sem sóttu safnið heim í hópferðum voru erlendir ferðamenn en aðrir sem komu gjarnan í safnið sem hluti af hóp voru nemendur, fyrirtækjahópar í skemmtiferðum og eldri borgarar.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV