Útilokar ekki fjármögnun hryðjuverkahópa

22.01.2016 - 02:46
epa05100358 US Secretary of State John Kerry delivers remarks on the US foreign policy agenda for 2016, at National Defense University on Fort McNair base in Washington, DC, USA, 13 January 2016. Kerry outlined the US strategy for dealing with Syria and
John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna.  Mynd: EPA  -  EPA
John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, útilokar ekki að hluti þess fjár sem losnar í kjölfar afnáms viðskiptabanns við Íran eigi eftir að renna til hryðjuverkasamtaka. Þetta sagði hann á blaðamannafundi í Davos í Sviss í dag.

Kerry ræddi um kjarnorkusamning vesturveldanna og Írans á Heimsviðskiptaráðstefnunni, World Economic Forum, í dag. Fréttamaður CNBC spurði hann hvort hluti þeirra peninga sem losni í kjölfar samningsins renni til samtaka sem bandarísk stjórnvöld líti á sem hryðjuverkahópa. Kerry svaraði því til að hann teldi hluta fjárins hugsanlega komast í hendur íranska byltingarhersins, IRGC, eða annarra tengdra samtaka. IRGC eru ekki skráð sem hryðjuverkasamtök hjá bandaríska utanríkisráðuneytinu. Quds-sveit byltingarhersins hefur hins vegar verið á lista ráðuneytisins frá árinu 2007.

Hann bætti því við að Bandaríkjaþing og aðrir samningsaðilar grípi til aðgerða ef Íranir gerast sekir um að fjármagna hryðjuverkahópa.

Kerry varði jafnframt eldflaugabann sem vesturveldin settu á Íran um leið og kjarnorkusamningurinn tók gildi á sunnudag. Mohammad Javad Zarif, starfsbróðir Kerry í Íran, gagnrýnir bannið. Honum þykir furðulegt að Bandaríkin lýsi áhyggjum yfir eldflaugaáætlun Írans sem einungis sé nýtt til varnar og stríði ekki gegn alþjóðasáttmálum.