Útgerðin Rammi fækkar starfsfólki

01.11.2016 - 14:44
Tölvugerð mynd af nýjum rystitogara Ramma hf.
 Mynd: rammi  -  www.rammi.is
Útgerðin Rammi í Fjallabyggð þarf að fækka starfsfólki þegar nýr frystitogari, Sólberg ÓF-1, verður tekinn í notkun. Skipið mun leysa tvo eldri frystitogara af hólmi og óhjákvæmlega verða því færri sjómenn á skipinu en á gömlu togurunum, Sigurbjörgu og Mánabergi. Í fundargerð bæjarráðs Fjallabyggðar kemur fram að fyrirtækið reikni með því að á þriðja tug starfsmanna verði sagt upp, en Ólafur Helgi Marteinsson ,forstjóri Ramma segir það þó ekki rétt.

Bæjarráð fundaði í morgun og tók þar fyrir erindi sem sneri að uppsögnum hjá Ramma og Fiskmarkaði Siglufjarðar. Fyrrí mánuðinum var eftir umsögn bæjarstjórans Gunnars Birgissonar, sem nú var lögð fram. Þar kemur fram að starfsfólki hjá Fiskmarkaðnum hefði raunar fjölgað um tvo frá síðasta ári vegna aukinna umsvifa. 

Í umsögninni segir einnig: „Með tilkomu nýs frystitogara Ramma hf., Sólbergs ÓF-1, mun fyrirtækið leggja tveimur eldri frystitogurum, Sigurbjörgu og Mánabergi. Nýi togarinn er útbúinn nýjustu tækni í veiðum og vinnslu, sem mun kalla á minna vinnuafl um borð. Fyrirtækið reiknar með fækkun á þriðja tug starfsmanna með tilkomu nýja skipsins. Áætlað er að flestir um borð í nýja skipinu verði búsettir í Fjallabyggð.“

Enginn skellur fyrir Fjallabyggð

Í samtali við fréttastofu segir Ólafur Helgi að Gunnar hafi ekki fengið þessar upplýsingar hjá fyrirtækinu með formlegum hætti, heldur frekar í almennu spjalli. Það sé ekki rétt að svo mörgum verði sagt upp, en rétt sé að fyrirtækið muni þurfa að fækka starfsfólki þar sem eitt skip muni leysa tvö af hólmi. Öllum í áhöfnum á skipunum verði sagt upp og svo verði eins margir endurráðnir og þurfi.

Hann segir að þetta muni ekki verða neinn skellur fyrir Fjallabyggð. Líklegt sé að greidd laun á nýja skipinu verði hærri en á báðum gömlu skipunum til samans, þar sem Sólberg sé stærra og öflugara skip en þau bæði. Fjallabyggð muni þannig fá meira í sinn sjóð af tekjum. Búist er við því að rekstur Sólbergs hefjist fljótlega á nýju ári, en nýlega var ný bryggja tekin í notkun á Siglufirði þar sem hægt verður að leggja skipinu.

 

Rögnvaldur Már Helgason
Fréttastofa RÚV