Útbreiðsla kerfils í Fljótum af mannavöldum

17.07.2017 - 16:10
Mynd með færslu
 Mynd: Trausti Sveinsson
Sprenging hefur verið í útbreiðslu skógarkerfils í Fljótum. Forstöðumaður Náttúrustofu Norðvesturlands segir allt benda til að útbreiðslan verði enn meiri á næsta ári. Hann brýnir fyrir Vegagerðinni að hreinsa tæki milli slátta í vegköntum, en upphaflega hafi kerfillinn dreifst meðfram veginum.

Bóndi með þungar áhyggjur

Trausti Sveinsson, bóndi í Fljótum, sagði í fréttum RÚV fyrir helgi að útbreiðsla kerfils á svæðinu verði stórvandamál ef ekkert verði að gert. Málið var rætt á fundi byggðarráðs Skagafjarðar, en engar ákvarðanir teknar um framhaldið, samkvæmt Stefáni Vagni Stefánssyni, formanni.

„Það hefur verið sprenging í þessu”

Náttúrustofa Norðvesturlands fékk ábendingu um stöðuna og ákvað að kortleggja útbreiðsluna. Bjarni Jónsson, forstöðumaður segir kerfilinn hafa breitt mikið úr sér á skömmum tíma, þéttast meðfram vegum, en líka á grónu landi og upp til fjalls.

„Okkur sýnist þetta hafa fyrst og fremst verið að aukast núna síðustu 2 eða 3 árin. Og það hefur verið sprenging í þessu með magnið og útbreiðsluna. Og miðað við hvað hún er að skjóta sér niður víða annarsstaðar þá eigum við von á því að það verði miklu meira útbreitt á næsta ári,” segir hann. 

Brýnir fyrir Vegagerðinni að hreinsa tækin

 Á korti Náttúrufræðistofnunar frá 2010 var kerfilsins ekki getið í Fljótunum. Bjarni segir að líklegt sé að plantan hafi breiðst mikið út af mannavöldum og beinir því til Vegagerðarinnar og verktaka hennar að hreinsa tæki eftir slátt svo fræ séu ekki borin á milli svæða.

„Þannig byrjaði þetta. Þetta var fyrst í Fljótunum bara í vegköntunum og síðan æðir þetta upp og niður,” segir Bjarni.  Nú sé það landeigenda, sveitarfélagsins og Vegagerðarinnar að taka ákvörðun um framhaldið. Leitað hefur verið ýmissa leiða til að hefta útbreiðsluna, meðal annars með slætti, eitri og beit.

Upphaflega skrúðplanta í görðum

Kerfillinn var upphaflega fluttur inn sem skrúðplanta í garða í Reykjavík og á Akureyri en hefur dreift sér víða þar sem hún getur vaxið nánast hvar sem er og kæft það sem í vegi hennar verður, eins og mela, tún og móa. „Það er hægt að fást við hann en það er bara talsvert verk,” segir Bjarni.