Útboð á hjólastíg dregið til baka

02.02.2016 - 21:08
Mynd með færslu
 Mynd: Reykjavíkurborg
Umhverfis-og skipulagssvið Reykjavíkurborgar hefur dregið til baka útboð á framkvæmdum við hjólastíg um Grensásveg, milli Miklubrautar og Bústaðavegar. Þetta kemur fram í tilkynningu frá borginni. Þar segir jafnframt að útboðið hafi verið samþykkt í borgarráði en að það hafi átt eftir að fara til umræðu í borgarstjórn.

Útboðið snýr að breytingum sem þarf að gera á götu og endurgerð gangstétta og gerð hjólastíga á Grensásvegi, frá Miklubraut í norðri að Bústaðavegi. 

Í tilkynningunni segir að málið fari til endanlegrar afgreiðslu borgarstjórnar með vísan í samþykktir um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar. 

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa gagnrýnt fyrirhugaðar framkvæmdir og sagt að þeim 160 milljónum króna sem verja eigi í þetta væri betur varið í viðgerð á illa förnum götum borgarinnar. Þá verði breytingarnar líklega til þess að umferð beinist meira inn í íbúðagötur í nágrenni Grensásvegar. 

 

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV