Úrsögn tekur gildi eftir 4 ár

02.06.2017 - 18:51
Mynd með færslu
 Mynd: RÚv  -  Rúv
Úrsögn Bandaríkjanna úr Parísarsamkomulaginu tekur fjögur ár og tekur hún gildi daginn eftir næstu forsetakosningar. Þetta segir Halldór Þorgeirsson, forstöðumaður á skrifstofu loftlagssamnings Sameinuðu þjóðanna .

Fylgst er með framkvæmd Parísarsamningsins á skrifstofu rammasamnings Sameinuðu þjóðanna í loftslagsmálum sem er í Þýskalandi. Halldór segir margt óljóst í málflutningi forseta Bandaríkjanna um að Bandaríkin segi sig fá Parísarsamkomulaginu.  Mikil sátt hafi náðst um samninginn vegna þess að hver þjóð hafi sjálf komið fram með sitt framlag. Bandaríkin hafi í tíð Obama sett sér krefjandi markmið um að draga úr losun.   
 
„En það er alveg ljóst að núverandi stjórnvöld mun ekki fylgja því eftir. Þeir eru og verða áfram aðilar að loftslagssamningi SÞ og þeir munu þó að liggi fyrir núna pólitísk ákvörðun þá tekur það 4 ár fyrir þá að losna undan Parísarsamkomulaginu. Það er svolítið sérstök tilviljun í því að þetta mun ganga í gildi þeirra úrsögn úr samningnum degi eftir næstu forsetakosningar.“

Fjölmargar ákvarðanir um loftslagsmál eru teknar af fyrirtækjum, atvinnulífinu, almenningi og ríkjum Bandaríkjanna.  „Og þau eru mörg mjög ákveðin í að halda ótrauð áfram og Kalifornía hefur verið skýrust í þessu. Þannig að það er of snemmt að segja hvaða afleiðingar þetta mun hafa á raunverulega losun frá Bandaríkjunum.“

Halldór segir að yfirlýsingar forsetans um fjármögnun aðgerða hafi verið áhyggjuefni. Alþjóðlegt samstarf á því sviði sé nauðsynlegt. 
 
„Það eru mjög fátækar þjóðir sem eru að fara mjög illa út úr þessu og þess vegna bera raunverulega öll ríki heims sameiginlega ábyrgð á því að takast á við þennan vanda. Þannig að það er önnur hlið á þessu máli sem kemur til með að hafa frekar neikvæð áhrif á orðstír Bandaríkjanna á alþjóðavettvangi.“

Ríki heims hafa brugðist hart við yfirlýsingum forseta Bandaríkjanna.  
 
„Það hefur verið mjög jákvætt hvað hefur verið mikill stuðningur við Parísarsamkomulagið sem hefur komið fram í dag og í raunar á síðustu dögum í aðdragandanum að þessu.
Rússland hefur gert öllum ljóst að þau munu halda áfram, Indland sömuleiðis og Kínverjar eru raunverulega á vissan hátt að komast núna í forystuhlutverk í þessu alþjóðasamstarfi um loftslagsmál.“ 
 

 

Bergljót Baldursdóttir
Fréttastofa RÚV