Úrslitum kann að hafa verið hagrætt í tennis

18.01.2016 - 07:20
DCIM\100GOPROÁhorfendur á tennisvelli.
 Mynd: Stocksnap.io
BBC og BuzzFeed News birtu í gærkvöld gögn sem benda til þess að úrslitum hafi verið hagrætt meðal þeirra bestu á stórmótum í tennis. Á síðustu 10 árum hafa 16 tennisspilararar, sem allir eru meðal 50 bestu í heiminum, verið tilkynntir til siðanefndar alþjóðatennissambandsins vegna gruns um hagræðingu úrslita. Í þessum hópi eru meðal annars tennisspilarar sem hafa unnið eitt af fjórum stóru mótunum.

Þetta kemur fram á vef BBC. Sérstök siðanefnd í tennisheiminum, sem falið var að skoða spillingamál, rannsakaði veðmál í kringum leik hjá Nikolay Davydenko og Martin Vassallo Arguello fyrir níu árum. Þeir lágu undir grun um að hafa hagrætt úrslitum í leiknum en nánari skoðun leiddi ekkert saknæmt í ljós. 

Að því er fram kemur á vef BBC hélt siðanefndin þó áfram rannsókn sinni og komst á snoðir um hópa í Rússlandi, norðurhluta Ítalíu og Sikiley sem veðjuðu miklu fé á leiki í tennis - þrír þeirra voru á Wimbledon-mótinu.

Siðanefndin skilaði skýrslu til Alþjóðatennissambandsins 2008 og taldi að skoða þyrfti nánar 28 tennisspilara. Skýrslunni var ekki fylgt eftir. Árið eftir tóku í gildi nýjar reglur sem áttu að taka á spillingu en lögspekingar tennissambandsins töldu að ekki væri hægt að eltast við grun um gömul brot.

Mark Phillips, sem styrði rannsókninni 2007, segir í samtali við BBC að þeir hefðu rökstuddan grun um að veðmál væru mjög áberandi í kringum ákveðinn hóp tennisspilara. „Við teljum að þarna séu tíu tennisspilarar sem eru rótin að þessu vandamáli,“ segir Phillips.

BBC og Buzzfeed fengu einnig nöfn tennisspilara sem veðmálafyrirtæki, siðanefndir og fjárhættuspilara hafa ítrekað varað við. Að því er fram kemur á vef BBC hafa sumir af þessum leikmönnum verið undir smásjánni hjá tennissambandinu síðan 2003. Meðal þeirra eru 8 þátttakendur á Opna ástralska meistaramótinu sem hefst í dag.

Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV