Úrslitastund að renna upp

18.02.2016 - 09:25
Leiðtogafundur Evrópusambandsríkjanna hefst í Brussel í dag. Þar verður rætt um málefni flóttafólks en athyglin beinist að því hvort takist samkomulag um breytingar á aðildarsamningi Bretlands. Bogi Ágústsson greindi á Morgunvaktinni á Rás 1 frá stöðu viðræðna, sem líklegt er að ljúki með samkomulagi eftir langar og strangar viðræður rauðeygðra stjórnmálamanna að morgni laugardags. Meirihluti Breta styður aðild að ESB - en fyrir þeim málstað tala fáir af ástríðu. Öðru máli gegnir um andstæðinga.

Mjög ólík afstaða Evrópusambandsríkja í flóttamannamálum mun vafalaust birtast á leiðtogafundinum í Brussel. Merkel hefur verið gagnrýnd heimafyrir í Þýskalandi vegna jákvæðrar afstöðu sinnar og ríki í Austur-Evrópu eru eindregin í andstöðu sinni við að hleypa mörgum flóttamönnum inn í Evrópu. Og meðal ásteytingarsteina í væntanlegum viðræðum Breta við bandalagsþjóðir sínar eru hugmyndir stjórnar Camerons um leiðir til að takmarka streymi vinnuafls frá meginlandinu til Bretlands. 

Bogi Ágústsson rifjaði einnig upp á Morgunvaktinni viðtal sem hann tók við Antonin Scalia, hæstaréttardómara í Bandaríkjunum, en hann er nýlátinn. Scalia var áhrifamesti og þekktasti dómarinn við réttinn, sem fylgdi bókstaf stjórnarskrárinnar í þaula, íhaldssamur prinsippmaður. 

Mynd með færslu
Óðinn Jónsson
dagskrárgerðarmaður
Morgunvaktin
Þessi þáttur er í hlaðvarpi