Uppreisnarmenn heita áframhaldandi baráttu

13.02.2016 - 04:28
epa05151413 A handout picture made available by Syrian Arab News Agency (SANA) shows Syrians policemen inspecting the site of bombing in the district of Masaken Barza, in Damascus, Syria, 09 February 2016. A monitoring group said on 09 February that at
Lögreglumaður á vettvangi sprengjárásar sem felldi 9 kollega hans í Damaskus á þriðjudag  Mynd: EPA  -  SANA
Uppreisnarhópar sýrlenskra stjórnarandstæðinga hafa ekki í hyggju að leggja niður vopn eða gera hlé á bardögum, þar sem þeir hafa enga trú á að Rússar muni láta af loftárásum sínum, sýrlenska stjórnarhernum til stuðnings. Breska ríkisútvarpið, BBC, greinir frá þessu. Samkomulag, sem fulltrúar 17 þjóða, Evrópusambandsins, Arababandalagsins, Sameinuðu þjóðanna undirrituðu í München á fimmtudagskvöld, kveður meðal annars á um að deiluaðilar geri hlé á átökum sínum innan viku.

Talsmenn þriggja stórra uppreisnarhreyfinga, sem BBC náði tali af, lýstu miklum efasemdum um þetta samkomulag og ítrekuðu þá kröfu sína, að Bashar al-Assad, Sýrlandsforseti, verði settur af.

Talsmaður hreyfingar sem kallar sig Frelsisher Sýrlands segir ekkert fá haggað tortryggni þeirra í garð Rússa.

Frá hinum strangtrúuðu salafistum og stjórnarandstæðingum í Ahrar ash-Sham hreyfingunni berast þau skilaboð að þeir muni ekki hætta að berjast fyrr en stjórnarherinn láti af sprengjuárásum og aflétti umsátrum um borgir og bæi. Þá verði að leyfa fólki að fara óáreitt úr landi og sleppa pólitískum föngum úr fangelsum landsins, ef friður eigi að nást.

Faylaq al-Sham, hópur sem á aðild að bandalagi sjö ólíkra stjórnarandstöðuhreyfinga í norðurhluta Sýrlands, segist ekki leggja niður vopn fyrr en Assad forseti hefur látið af völdum.

Riad Hijab, sem fer fyrir stærsta bandalagi sýrlenskra stjórnarandstæðinga, hafði áður lýst því yfir að það væri óraunhæft og órökrétt að lýsa yfir hléi á átökum áður en nokkur árangur hefði náðst á stjórnmálasviðinu í Sýrlandi.

Assad Sýrlandsforseti lýsti því yfir á fimmtudag, skömmu áður en samkomulagið í München var undirritað, að hann hygðist ná yfirráðum í Sýrlandi öllu, áður en yfir lyki, þótt það kæmi til með að reynast bæði tímafrekt og dýrkeypt.

Hvorki Sýrlandsstjórn né fulltrúar sýrlensku uppreisnarhópanna skrifuðu undir samkomulagið, öfugt við það sem fram kom í fjölmiðlum, þar á meðal á rúv.is, skömmu eftir að það var kynnt til sögunnar. 

 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV