Uppreisnarmenn flykkjast til Sýrlands

18.02.2016 - 01:23
Mynd með færslu
Aleppo.  Mynd: YouTube
Hundruð uppreisnarmanna fóru yfir tyrknesku landamærin í áttina að sýrlensku borginni Azaz í Aleppo-héraði í dag samkvæmt heimildum AFP fréttastofunnar. Hersveitir uppreisnarmanna hafa misst landsvæði til kúrdískra hersveita að undanförnu.

Að sögn Rami Abdel, yfirmanns sýrlensku mannréttindavaktarinnar, fóru að minnsta kosti 500 uppreisnarmenn yfir landamærin við Bab al-Salam. Hann segir herskáa íslamista vera á meðal uppreisnarmannanna og allir hafi farið vopnaðir yfir landamærin.

Þetta er í annað sinn á örfáum dögum sem fjöldi uppreisnarmanna fer yfir landamærin. Á sunnudag fóru nærri 350 uppreisnarmenn yfir landamærin við Atme, bæði þung- og léttvopnaðir.

Svæði undir stjórn uppreisnarsveita hafa legið undir stöðugum árásum stjórnarhersins sem studdur er af Rússum. Kúrdískar hersveitir hafa nýtt sér glundroðann og tekið völdin víða í norðurhluta Sýrlands.

Uppreisnarmenn stjórna nú aðeins Azaz, sem er nærri tyrknesku landamærunum, og Marea sem er örlítið sunnar. Kúrdískar hersveitir hafa náð yfirráðum á svæðum vestan við borgirnar og hryðjuverkasveitirnar sem kenna sig við íslamskt ríki hafa völdin austan við þær. 

Tyrkir hafa einnig áhyggjur af vaxandi ítökum Kúrda í Sýrlandi, og hafa gert árásir á svæði þeirra í landinu síðustu fimm daga.

 

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV