RÚV okkar allra
Hér upplýsum við um starfsemina, bjóðum upp á samtal og svörum spurningum þínum

Uppfærsla á útspilunarkerfi sjónvarpsins

Síðustu vikur hafa tæknimenn RÚV unnið við uppfærslu á útspilunarkerfi sjónvarpsins sem leysir af hólmi tvö eldri kerfi, annað fyrir útsendingar í lágskerpu en hitt fyrir útsendingar í háskerpu.

Lágskerpukerfið var í grunninn frá árinu 2000, en háskerpukerfið var sett upp í tilraunaskyni árið  2012.  Samhliða þessarri uppfærslu voru eldri innviðir RÚV uppfærðir, meðal annarra textakerfið, miðkrossval og annar tengdur búnaður.

Þessi uppfærsla hefur í för með sér að allar sjónvarpsútsendingar RÚV eru í háskerpu í grunninn, þótt skerpa geti verið minni á dreifileiðum og á eldra efni. 

Í ljósi gríðarlegs umfangs verkefnisins hafa glöggir áhorfendur tekið eftir smávægilegum hnökrum í útsendingu, en verið er að vinna í þeim hratt og örugglega.

Þessi uppfærsla er liður í uppfærsluferli sem hófst fyrir margt löngu, t.d. með nýjum útsendingabíl sjónvarps, uppfærslu á dreifikerfum, gervihnattamóttöku, og fleira.  Sömuleiðis er þessi uppfærsla annað af tveimur stórum lokaskrefum í háskerpuvæðingu sjónvarpsins, nú á aðeins eftir að ljúka háskerpuvæðingu myndvera RÚV, sem stefnt er á fyrrihluta þessa árs.

 

13.01.2017 kl.15:08
Mynd með færslu
Gunnar Örn Guðmundsson
Birt undir: Í umræðunni, útsendingakerfi