RÚV okkar allra
Hér upplýsum við um starfsemina, bjóðum upp á samtal og svörum spurningum þínum

Upp og niður völlinn

Íþróttamálfar var í brennidepli í málskotinu. Einar Örn Jónsson íþróttafréttamaður ræddi um málfar í íþróttum og íþróttafréttum. Það er fjölbreytt eins og við er að búast og margar gildrur sem auðvelt er að falla í.

Málfar í íþróttum verður mörgum að umtalsefni. Það má velta fyrir sér hvað einkenni málfar í íþróttum. Sumir láta íþróttamálfarið fara óskaplega í taugarnar á sér enda má segja að það sé ríkt af margvíslegum málblómum eins og vont málfar er stundum kallað. Engu að síður er heilmikil nýsköpun í íþróttamáli.  það er líka heilmikil nýsköpun í íþróttamáli. Mikil vinna er lögð í að finna og búa til íslensk heiti á íþróttagreinar og margvísleg hugtök sem þeim tengjast. 

Iðkun og umfjöllun

Það er munur á málfari þeirra sem iðka íþróttir og þeirra sem fjalla um þær. Tungutak iðkenda er oftast nokkuð sérhæft og í því getur verið mikið um slettur, styttingar og vísanir sem íþróttafréttamenn geta ekki gripið upp hráar. Þeirra verkefni er að koma íþróttaumfjölluninni til skila þannig að þeir sem eru ekki innvígðir í íþróttina botni eitthvað í henni.  

Enskuslettur og nýyrðasmíði

Mörg íslensk hugtök í íþróttum eru svipmikil og falleg. Þau eru búin til í tengslum við íþróttina og verða föst hugtök í málinu en þau eru ekki endilega notuð í daglegu tali. Allir vita hvað knattspyrna og handknattleikur eru en enginn myndi nota þessi orð í daglegu tali heldur er alltaf talað um fótbolta og handbolta.

Ensk áhrif eru auðvitað mikil í íþróttamáli eins og annars staðar í samfélaginu. Í stað þess að detta fara menn niður og í stað þess að vera felldir eru þeir teknir niður.

Íþróttafréttamenn eru vandir að virðingu sinni og vilja koma íþróttafréttum til skila þannig að sómi sé að. Á íþróttadeildinni á RÚV er t.d. mikið rætt um málfar og merkingu, hvað er góð íslenska og hvað ekki. Þeir vilja líka hafa kjarngott og fjölbreytt tungutak en það er alltaf hætta á því að orð og orðasambönd séu ofnotuð og þá verða þau að klisjum sem fljótt verða þreyttar og fara þá að fara í taugarnar á þeim sem hlusta.

03.11.2015 kl.16:24
Mynd með færslu
Anna Sigríður Þráinsdóttir
málfarsráðunautur
Birt undir: Bloggið, Íslenskt mál, Morgunútvarpið