United Silicon og vítin til að varast

Mynd með færslu
 Mynd: Ragnar Visage  -  RÚV
Arion banki sá um fjármögnun fyrir United Silicon, lánaði fyrirtækinu, varð hluthafi og fékk þrjá lífeyrissjóði til að bæði lána og gerast hluthafar. Hlutverk bankans beinir athyglinni að tengslum banka og lífeyrissjóða. Spurningin um hvernig bankar meta þá aðila sem þeir lána er enn brýnni nú þegar stjórn United Silicon hefur kært stofnanda fyrirtækisins til Héraðssaksóknara.

 

DNB og lánakúfurinn sem fer til útlanda

Norski DNB-bankinn er ekki þekkt nafn á Íslandi og starfar ekki hér. Bankinn er þó einn stærsti lánveitandi íslenskra fyrirtækja. Ráðamenn bankans vita sem er að þeir sem þurfa fyrirgreiðslu hans, það eru einkum fyrirtæki í sjávarútvegi og laxeldi, vita vel hvar bankann er að finna. Samkvæmt upplýsingum DNB til Spegilsins nema útistandandi lán bankans til íslenskra fyrirtækja 240 milljónum bandaríkjadala eða 25,6 milljörðum króna.

Þannig fer kúfurinn af íslenskum lánamarkaði erlendis. Það hentar stærstu fyrirtækjunum að nýta sér erlend lán. En íslenskir bankar, sem þegar harka á mjög litlum markaði, missa þarna spón úr sínum aski.

Arion og fjármögnun United Silicon

Í þessu samhengi er áhugavert að huga að fjármögnun United Silicon. Arion banki tók að sér að finna fjármagn í framkvæmdina og fann það hjá þremur lífeyrissjóðum: einum á Suðurnesjum þar sem lengi hefur verið leitað að starfsemi til að fylla umsvifagatið eftir bandaríska herinn. Og svo hjá tveimur lífeyrissjóðum sem Arion banki sér um að reka. Samkvæmt heimildum Spegilsins var eigið fé eigenda United Silicon tveir milljarðar.

Niðurstaðan er að Arion hefur lánað fyrirtækinu átta milljarða, auk þess að eiga 16,3 prósent í United Silicon. Arion keypti síðast hluti nú í júní. Hlutur Arion í United Silicon er metinn á 1,2 milljarða samkvæmt upplýsingum bankans. Lífeyrissjóðirnir þrír eiga samtals um tvo milljarða undir þarna. Fé sem er ýmist afskrifað eða niðurfært.

Arion og skuldbindingar United vegna orkusamnings

Hluti af þessum átta milljörðum eru skuldbindingar vegna orkusamninga kísilversins við Landsvirkjun. Landsvirkjun hefur tekið fram að hún hafi góðar tryggingar. Þær tryggingar eru, samkvæmt upplýsingum Spegilsins, frá Arion. Arion vildi ekki svara fyrirspurn Spegilsins um þessa ábyrgð því einstakir þættir viðskipta bankans féllu undir bankaleynd. Þessi trygging þýðir að fari United í þrot þarf Arion að halda áfram að greiða Landsvirkjun rafmagnið nema bankinn geti selt saminginn.

Kísilverið, greiðslustöðvun og það sem á vantar

Nú er svo United Silicon komið í greiðslustöðvun. Burtséð frá því að félagið hefur verið dæmt til að greiða ÍAV einn milljarð þá er ljóst að kísilverið er vanbúið til áframhaldandi starfsemi. Tækjakosturinn ekki sá sem þarf og jafnvel án þessa milljarðs væri fyrirtækið í raun óstarfhæft.

Starfandi ver eða minnisvarði brostinna vona

Ef kísilverið á ekki að breytast í minnisvarða brostinna vona blasir við að það þarf mun meiri fjármuni, líklega nokkra milljarða. Gjaldþrot er möguleiki en kannski líklegast að Arion finni samstarfsaðila í hópi erlendra hrávörufyrirtækja með þekkingu á kísilframleiðslu og markaðnum. United hefur frá upphafi verið í meirihlutaeigu erlendra fjárfesta sem fela sig bak við nafnleynd. Það yrði því ekki breyting á þó nýir eigendur yrðu erlendir.

Stofnandi kærður til Héraðssaksóknara

Kæra stjórnar United Silicon til Héraðssaksóknara vegna meintra auðgunarbrota Magnúsar Garðarssonar stofnanda og eins eiganda United Silicons er svo síðasta uppákoman í vandræðasögu fyrirtækisins. Spegillinn hefur áður bent á að íslenskir bankar gera ekki sömu úttekt og erlendis tíðkast á einstaklingum sem sækja um lán til stórra verkefna. Gerð er áreiðanleikakönnun á viðskiptaáætlunum en ekki á umsvifum og burðum einstaklinga sem leita lána í stór umsvif.

Lífeyrissjóðirnir – sem fjárfestingaarmur bankanna

Kæran er ný framvinda en það er ekkert nýtt að banki fái lífeyrissjóði með í fjármögnun, bæði sem skuldabréfaeigendur og hluthafa. Tapsaga lífeyrissjóðanna í kjölfar bankahrunsins 2008 opinberar margar hættur. Og tapsagan situr í mörgum sem greiða reglulega hluta launa sinna í lífeyrissjóð.

Freisting banka til að taka að sér fjármögnun er mikil og freisting lífeyrissjóða til að taka boði banka er býsna sterk á þessum litla markaði sem Ísland er. Það vantar ekki fjármagn á Íslandi en það vantar góð fjárfestingaverkefni. Eins og einn viðmælandi Spegilsins sagði eru sterk tengsl banka og lífeyrissjóða þess eðlis að sjóðirnir eru í raun eins og fjárfestingaarmur bankanna. Svo náin eru þessi tengsl.

Freistingar á litlum markaði

Á jafn litlum markaði og Íslandi er hætt við að bankar og lífeyrissjóðir stökkvi á verkefni sem líta vel út á blaði en standast svo ekki próf tímans, hvort sem það er af því verkefnið er í raun ekki nógu vel unnið, ekki nógu vel framkvæmt, stjórnendur þess ekki nógu góðir eða allt framantalið. United Silicon er margslungin saga um vítin sem eru til að varast.

 

Mynd með færslu
Sigrún Davíðsdóttir
Mynd með færslu
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV
Spegillinn
Þessi þáttur er í hlaðvarpi