United Silicon í greiðslustöðvun

14.08.2017 - 17:31
Mynd með færslu
 Mynd: Ragnar Visage  -  RÚV
Héraðsdómur Reykjaness hefur veitt stjórn Sameinaðs Silicons heimild til greiðslustöðvunar til að reyna að ná bindandi nauðasamningum við lánadrottna. Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu þar sem segir að ástæðan séu erfiðleikar í rekstri verksmiðju fyrirtækisins í Helguvík en þá megi rekja til síeundrtekinna bilana í búnaði sem „valdið hafa félaginu miklu tjóni.“

Í yfirlýsingunni kemur fram að það hafi verið fyrirsjáanlegt að félagið myndi að óbreyttu eiga erfitt með að standa í skilum við lánadrottna.

Aðgerðir einstakra kröfuhafa hafi verið yfirvofandi ef félagið myndi ekki bregðast við án tafa. Þá hafi nýfallinn gerðardómur í deilu félagsins við ÍAV einnig aukið á óvissuna. 

Gerðardómur komst að þeirri niðurstöðu að United Silicon þyrfti að greiða Íslenskum aðalverktökum reikning upp á rúmlega einn milljarð. 

Hvorki hefur gengið né rekið hjá United Silcion í Helguvík síðan verksmiðja félagsins var ræst í nóvember á síðasta ári. Tvívegis hefur komið upp eldur í verksmiðjunni og Umhverfisstofnun hefur haft hana í hálfgerðri gjörgæslu.

Í morgun var greint frá því að yfir hundrað ábendingar vegna verksmiðjunnar hefðu borist til Umhverfisstofnunar síðan á fimmtudag í síðustu viku en þá kom upp bilun í rafskauti í ofni verksmiðjunnar.

Íbúar í nágrenni verksmiðjunnar hafa fengið sig fullsadda af mengun frá verksmiðjunni. „„Þessi verksmiðja ætti að vera löngu búin að missa starfsleyfið enda er marg oft búið að brjóta það. Ég skil þetta ekki. Ég hefði haldið að lífsgæði skiptu meira máli,“ sagði Ragnheiður L. Guðmundsdóttir, stjórnarmaður í samtökunum Andstæðingar stóriðju í Helguvík og íbúi við Melteig í Reykjanesbæ.

Þolinmæðin hjá bæjaryfirvöldum í Reykjanesbæ virðist líka á þrotum - Friðjón Einarsson, formaður bæjarráðs, sagði til að mynda í fréttum RÚV fyrir helgi að ef ekki væri hægt að starfrækja verksmiðjuna án mengunar þyrfti að loka henni. „Maður heyrir sögur af íbúum sem eru veikir, geta ekki opnað glugga. Ég hef heyrt af íbúum sem hafa selt íbúð í nágrenni við verksmiðjuna. Það verður bara að loka þessu úr því að þeim tekst ekki að ná tökum á verkefninu,“ sagði Friðjón.

Félagið segist í yfirlýsingunni nú síðdegis taka alvarlega þá ábyrgð  sem fylgi því að reka stórt fyrirtæki með mikinn fjölda starfsmanna sem skapi tekjur fyrir nærsamfélagið.  „Nauðasamningar eru besta leiðin til að verja þau störf og tryggja að hægt sé að halda uppbyggingu starfseminnar áfram á þann veg að fyrirtækið geti starfað í samræmi við starfsleyfi og í góðri sátt við umhverfið.“