Ungt fólk á geðdeild eftir kannabisneyslu

18.05.2017 - 19:03
Mynd með færslu
 Mynd: Shutterstock
Sigurður Hektorsson, yfirlæknir á fíknigeðdeild Landspítalans, segir að síðastliðin 5 ár hafi ungu fólki, sem sýnir geðrofseinkenni vegna kannabisneyslu, fjölgað mikið. Styrkleiki kannabisefna hafi aukist og því komi einkenni fyrr fram. Rúmlega helmingur þeirra, sem liggja á geðdeildinni, eiga við kannabisvanda að stríða.

Sigurður sagði í samtali við Síðdegisútvarpið að geðræn einkenni vegna kannabis neyslu verði sífellt algengari. „Við höfum séð þeim fjölga mikið á síðustu fimm, en aðallega á síðustu tveimur árum, sem eru komnir í mjög mikinn vanda. Þegar fólk er búið að reykja kannabis mikið og lengi þá fer fólk að fá ýmis geðræn einkenni. Langvinnur kvíði, svefntruflanir, eirðarleysi og sljóleika. Fólk dregur sig í hlé og hættir að sinna daglegum athöfnum. Svo sjáum við á geðdeildinni alvarlegri afleiðingarnar og þá grípum við inn í hjá þeim sem eru veikastir. Það sem við höfum mestar áhyggjur í dag er ungt fólk sem þróar með sér geðrofseinkenni sem er að sýna forstigseinkenni geðklofa.“

Samkvæmt nýjustu tölum frá Rannsóknum og greiningu hafa 18% nemenda í framhaldsskólum prófað kannabisefni einu sinni eða oftar. Þar kemur líka fram að 33% stráka, 18 ára og eldri í framhaldsskóla, hefur prófað kannabis og 14% sama hóps sögðust hafa notað kannabis undanfarna þrjátíu daga. Hlutfallið hjá stúlkum er talsvert lægra. Lögreglan segist verða mikið vör við framleiðslu, neyslu og sölu á kannabisefnum og þau séu að verða sterkari. Samhliða þessu hefur aðgengi aukist, ekki síst á samfélagsmiðlum.

Kannabis sjálfstæður áhættuþáttur

„Nýjustu rannsóknir sýna það að kannabisreykingar eru sjálfstæður áhættuþáttur til þróunar geðrofs, það er að segja fólk sem reykir kannabis að staðaldri er með þennan áhættuþátt að þróa með sér geðrof. Það hefur verið talað um það að fólk sem veikist af geðrofssjúkdómi, eins og geðklofa, það veikist mun fyrr og áhættan samkvæmt nýjustu rannsóknum erlendis getur verið allt að tvöföld miðað við þá sem reykja ekki kannabis,“ segir Sigurður. 

Sigurður segir að málin séu alvarlegri en áður. „Við erum að sjá þetta í auknum mæli, við sjáum það best á því að við erum með miklu fleiri innliggjandi á fíknilegu deildinni okkar. Þar erum við með 18 rúm og það er jafnvel helmingur sem á við kannabis vanda að stríða – þetta sáum við ekki áður. Við erum að sinna hinum alvarlega geðsjúku fólki og kannabisneysla meðal þeirra er mjög algeng og vímuefnaneysla yfirhöfuð. Það er náttúrlega eins og að hella olíu á eldinn þegar það er undirliggjandi geðsjúkdómur. Kannabis er bara orðið svo algengt og styrkleiki efnisins, THC, hefur farið vaxandi á síðustu 10 árum. Menn hafa verið að rækta sterkari plöntu sem inniheldur sterkari efni.“

Sigurður segir að kannabis sé ávanabindandi og á því leiki enginn vafi. „Þó það megi deila um einstaka þætti í þessu sambandi þá held ég að við læknar séum flestir á einu máli um það að þegar reykingarnar ná ákveðinni tíðni og magni þá verður það skaðlegt. Þetta er ávanabindandi, þetta ýtir undir fíkn og er fíkniefni það er enginn vafi á því. Þegar fíkn þróast þá fer fólk að nota meira af efninu og þá verður skaðsemin meiri.“ 

Samfélagið gefi skakka mynd af raunveruleikanum

„Það er alveg óhætt að segja það að það sé ekki verið að draga upp mynd af raunveruleikanum í t.d sjónvarpsþáttum og annarri dægurmenningu. Það er kannski töluverð bylgja í átt að fegra afleiðingarnar og einblína ekki á afleiðingar heldur frekar frelsi fólks til að gera það sem það langar að gera. Við sjáum að þetta gildir um önnur efni eins og áfengi. Notkun áfengis í kvikmyndum í menningunni og tóbaks og svoleiðis. Við sjáum það að það er alveg hægt að breyta þessari menningu, eins og til dæmis hefur gerst með tóbaksreykingar. Við sjáum það að það er miklu minna um tóbaksreykingar í kvikmyndum en áður og sem betur fer hefur verið hægt að lækka tíðni reykinga mjög mikið á Íslandi og öðrum Vesturlöndum. Því held ég að sams konar aðgerðir ættu að geta náð til kannabis og annarra vímugjafa,“ segir Sigurður.

Hvað þarf að breytast? „Ég held að það sé fyrst og fremst fræðsla sem gildir þar. Það er töluvert um íslenskt fræðsluefni á boðstólum. Ég vil t.d. benda á síðu sem heitir Kannabis.is. Þar er töluvert af góðu fræðsluefni, mjög áreiðanlegar heimildir og vel rökstutt og byggt á rannsóknum og vísindum. Ef augum fólks og ungmenna er beint að þessari skaðsemi er hægt að sporna við þessu.“ 

Mynd með færslu
Milla Ósk Magnúsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðdegisútvarpið
Þessi þáttur er í hlaðvarpi