Undirgefni er bók vikunnar

Bókmenntir
 · 
Menningarefni

Undirgefni er bók vikunnar

Bókmenntir
 · 
Menningarefni
Mynd með færslu
25.02.2016 - 01:29.Jórunn Sigurðardóttir
Þær bera ólíkar kápur þýðingarnar og frumútgáfa kannski umtöluðustu skáldsögu nýs árs í Evrópu og þótt víðar væri skimað. Eins og oft áður í skáldsögum sínum skimar franski rithöfundurinn Michel Houellebecq í Undirgefni úr fjarlægð næstu framtíðar til vorra tíma. Undirgefni kom út í Frakklandi fyrir ári og hefur verið þýdd á ótal tungumál. Íslensk þýðing Friðriks Rafnssonar kom út í síðustu viku og skartar engu nema titlinum á sínum biksvarta grunni, hyldýpinu sem þessi saga opnar sýn til.

Skáldsagan Undirgefni gerist árið 2022 og músliminn Ben Abbas hefur verið kosinn forseti franska lýðveldisins og það hefur vissulega ýmsar breytingar í för með sér en um leið er þessi þróun er líka jafnvel rökrétt. Michell Houellbecq er sérfræðingur að spinna trúverðugan aðdraganda ólíklegust hluta út frá kunnuglegum forsendum.

Á sunnudaginn, 28. febrúar ræðir Jórunn Sigurðardóttir við þær Fríðu Björk Ingvarsdóttur bókmenntafræðing og rektor Listaháskóla Íslands og Guðrúnu Hálfdánardóttur blaðamann á mbl.is um þessa umdeildu bók. En þar er til að mynda lýst hvernig franskir háskólar, m.a. Sorbonne eru reknir með dollurum olíufursta í Austurlöndum; hvernig atvinnuleysi er útrýmt með því beina konunum inn á heimilin og enginn karlmaður þarf að vera einmana því jafnvel sveittustu durgum er séð fyrir viðeigandi kvonfangi.

Og mátti ekki sjá þetta fyrir? Var ekki þegar á öðrun áratug aldarinnar tekið að halla undan jafnaðarstefnunni og þjóðernisflokkar að vaxa einkum á kosnað miðju flokka pólitíkurinnar til hægri og vinstri tók að eflas. Á þessum tíma hefur líka sá hluti íbúanna sem aðhyllist Islam farið stöðugt vaxandi í löndum Evrópu og krafist réttar síns til trúarbragðaiðkunar og botnar ekkert í ólíklegustu útleggingum heimamanna, frumbyggjanna eins og þeir vilja sumir kalla sig, á kristinni trú þannig að frelsi geti verið næsta ótakmarkað ef ekkert truflar nauðsynleg viðskipti.

Undirgefni er afar áhugaverð skoðun á margvíslegum hugmyndakreppum samfélaga  Vesturlanda, skoðun sem bæði er spegluð í fortíð og framtíð. Um leið er Undirgefni skáldsaga um heldur dapran prófessor í bókmenntafræði sem skyndilega skilur hvorki upp né niður í heiminum í kringum sig.