Umsátursástand á Akureyri

13.03.2016 - 04:14
Mynd með færslu
 Mynd: BÞG  -  rúv
Mynd með færslu
 Mynd: BÞG  -  rúv
Mynd með færslu
 Mynd: BÞG  -  rúv
Mynd með færslu
 Mynd: BÞG  -  rúv
Lögregla og sérsveitarmenn á Akureyri umkringja nú fjölbýlishús í Naustahverfi þar í bæ. Tilkynning barst um skothvelli úr íbúð í húsinu um hálf tvö leytið í nótt. Að sögn Höllu Bergþóru Björnsdóttur, lögreglustjóra á Akureyri, hefur lögregla tryggt vettvang og bíður nú liðsauka frá sérsveitinni í Reykjavík. Aukamannskapur frá lögreglunni á Dalvík og Húsavík er þegar kominn til Akureyrar, svo hægt sé að sinna almennri löggæslu. Nærliggjandi götum hefur verið lokað fyrir umferð.

Aðspurð hvort búið væri að koma öðrum íbúum fjölbýlishússins og nærliggjandi húsa í öruggt skjól sagði Halla svo ekki vera. Sagði hún búið að tryggja vettvang, en baðst undan því að útskýra nánar hvað í því felst. 

Þá hefur ekki fengist staðfest að um byssuskot hafi verið að ræða, en Halla Bergþóra segir líklegt að það sé raunin. Gengið er út frá því að svo sé þar til annað kemur í ljós. 

 

 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV