Umsátrinu á Akureyri lokið

13.03.2016 - 05:36
Mynd með færslu
 Mynd: BÞG  -  rúv
Mynd með færslu
 Mynd: BÞG  -  rúv
Umsátrinu um íbúð í fjölbýlishúsi í Naustahverfi á Akureyri lauk um klukkan fimm í morgun. Skömmu eftir að liðsauki frá sérsveit lögreglunnar í Reykjavík barst var hinn grunaði handtekinn í húsinu og færður í fangageymslur lögreglunnar á Akureyri. Hann verður yfirheyrður síðar í dag. Vettvangur hefur verið tryggður og rannóknardeild Akureyrarlögreglunnar mun rannsaka hann í framhaldinu.

Aðspurð hvort handtakan hefði gengið vandræðalaust fyrir sig sagðist Halla Bergþóra Björnsdóttir, lögreglustjóri á Akureyri, ekki geta gefið nánari upplýsingar um framvinduna að svo stöddu.

Haft var samband við lögreglu um klukkan hálftvö í nótt vegna skothvella sem bárust úr íbúð í fjölbýli í Naustahverfi. Umfangsmikil lögregluaðgerð hófst þegar í kjölfarið. Allir lögreglumenn bæjarins og sérsveitarmenn á Akureyri voru kallaðir til, auk þess sem hóað var í liðsauka frá Dalvík, Húsavík og sérsveitinni í Reykjavík. Nokkrum götum var lokað og allt gert til að tryggja vettvang, meðan beðið var eftir liðsaukanum að sunnan. Hluti almennra lögregluþjóna sem kallaðir voru til sinnti almennri löggæslu í bænum á meðan.

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV