Umræðan einkennist of oft af „mér finnst“

12.01.2016 - 11:57
Aðalheiður Atladóttir, formaður arkitektasambandsins segir að arkitektar vilji einblína á samtímann og skapa byggingarsögu í dag fyrir seinni tíma. Hún segir að umræða um arkitektúr í samfélaginu einkennist of oft af „mér finnst“-nálgun og fólk hafi ekki endilega góð rök fyrir málflutningi sínum.

Sjö ný hús verða reist við Tollhúsið við Tryggvagötu undir nafninu Hafnartorg. Skipulagsyfirvöld borgarinnar hafa samþykkt teikningarnar og byggingaráform, þó ekki séu allir sammála um nýtt útlit reitsins. Aðalheiði líst ágætlega á Hafnartorgið og segir það í samræmi við byggingamagn á svæðinu. Hún tekur þó fram að stóra hvíta húsið gegnt forsætisráðuneytinu mætti vera lægra í loftinu og meira brotið upp. „Við getum hins vegar aldrei öll orðið sammála um útlit svæðisins. Þetta er fagmannlega unnið miðað við það sem fram er komið,“ segir hún.

Landstólpi vann hugmynd og útlit húsanna með PK arkitektum, og er hugmyndin að tengja reitinn í allar áttir - að gamla bænum, að Hörpu og út í Vesturhöfnina. Byggingamagn á svæðinu er 30 þúsund fermetrar og er áætlað að það verði tilbúið á vormánuðum 2018. Svæðið skiptist í þrenns konar húsnæði; einn þriðja íbúðir, einn þriðja skrifstofur og einn þriðja verslun. Nú standa yfir viðræður milli innlendra og erlendra fyrirtækja sem vilja hefja verslunarrekstur á svæðinu.

Oft mörg ár í vinnslu
Aðalheiður segir að skipulag á álíka svæði geti verið tímafrekt. „Þetta getur tekið mjög langan tíma. Það er unnið náið með borgaryfirvöldum, gerð frumdrög að svæðinu og haldnir íbúafundir. Síðan tekur við ákveðið lögbundið ferli, auglýst og fólk hefur frest til þess að gera athugasemdir. Skipulag á þessu svæði hefur staðið yfir í nokkur ár.“

Aðalheiður segir að arkitektar ræði sín á milli umræðu um störf þeirra í þjóðfélaginu og þá gagnrýni sem er fram sett. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra er einn þeirra sem hefur gagnrýnt Hafnartorgið og haft uppi eigin skoðanir á arkitektúr. „Við erum oft gagnrýnd fyrir að tjá okkur ekki nógu mikið. Við gerum samt mikið af því í raun og veru, gerum það alla daga með teikningum og samtali við yfirvöld, verkkaupa og fleiri. Umræðan finnst mér hafa einkennst af „mér finnst“ og stundum eru ekki mörg rök að baki.“

Sumir hafa alls ekki smekk fyrir nútímaarkitektúr og vilja helst það sem eldra er. „Við viljum horfa í samtímann og skapa þá sögu fyrir seinni tíma, vera djörf og framsækin og gera eitthvað flott í dag,“ segir Aðalheiður, en ekki horfa á teikningar sem gerðar voru fyrir einni öld.