Umræða um fækkun ferðamanna ekki stoð í tölum

15.07.2017 - 16:41
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV  -  Ágúst Ólafsson
Ferðamönnum er enn að fjölga og kortavelta þeirra í heild að aukast. Þetta er þvert á umræðu um afbókanir og versnandi horfur í ferðaþjónustunni, að því er fram kemur í markaðspunktum greiningardeildar Arion banka. 

Þó virðist sem nýjustu tölur um gistinætur erlendra ferðamanna á hótelum, sem og ýmislegt annað, beri með sér að toppnum í vextinum sé að öllum líkindum náð, segir í markaðspunktunum. „Rétt er að taka strax fram að minni vöxtur er ekki það sama og samdráttur, og hrun ferðaþjónustunnar er ekki fyrirsjáanlegt líkt og fjallað er um í nýlegri skýrslu  Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um Ísland, þó það sé vissulega ekki ómögulegt,“ segir jafnframt.

Verulega hægði á fjölgun gistinátta á hótelum í maí miðað við sama mánuð í fyrra og voru 6,1% fleiri ferðamenn í ár. Fjölgunin milli áranna 2015 og 2016 var á bilinu 20-60% og því hefur hægt á vextinum. Gistináttum fjölgar hægar en ferðamönnum því ferðamenn dvelja hér styttra en áður. „Það kann einnig að vera að sterkt gengi krónunnar sé að leiða til þess að ferðamenn séu í auknum mæli að kjósa ódýrari gistingu, til dæmis í tjöldum, heimahúsum, í húsbílum eða á gistiheimilum,“ segir í markaðspunktunum.

Þrátt fyrir að hægt hafi á fjölgun gistinátta eru nýtingartölur almennt mjög sterkar og í flestum landshlutum var nýting hótelherbergja að batna milli ára í maí.