Umkvartanir Thomasar rannsakaðar

Mynd með færslu
 Mynd: Eggert Þór Jónsson  -  RÚV
Það er ekki í samræmi við vinnubrögð lögreglunnar hafi Thomas Møller Olsen verið yfirheyrður með þeim hætti sem hann lýsir, sagði Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu og stjórnandi rannsóknarinnar á morðinu á Birnu Brjánsdóttur, við skýrslugjöf í Héraðsdómi Reykjaness á tólfta tímanum í dag. Grímur sagði að Thomas hefði kvartað undan meðferð á sér og það hafi alltaf verið rannsakað til sektar eða sýknu.

Spurður um meðferð á föngunum

Páll Rúnar M. Kristjánsson, verjandi Thomasar, spurði Grím út í yfirheyrslur yfir Thomasi og þá meðferð sem Thomas hefur lýst. Hann sagði við skýrslugjöf í síðustu viku að lögreglumenn hefðu öskrað á sig, við yfirheyrslur og meðan hann var í gæsluvarðhaldi. Nikolaj Olsen, sem var líka í gæsluvarðhaldi um skeið, sagði einnig að öskrað hefði verið á sig í fyrstu yfirheyrslu en ekki eftir það.

Páll spurði Grím sérstaklega út í yfirheyrslu þar sem lögreglumaður hefði sagt við Thomas: „Þú myrtir þessa stelpu og losaðir þig við hana einhvers staðar.“ Grímur sagðist ekki vera sáttur við þessa yfirheyrslutækni. Hann kvaðst telja að ef þetta væri rétt eftir lögreglumanninum haft væri þetta ekki í samræmi við vinnubrögð lögreglunnar.

Reyndu að tala við alla

Grímur sagði að lögreglan hefði reynt að ná tali af öllum sem Thomas ræddi við um nóttina. Þess vegna hefði verið nauðsynlegt að hafa hann í einangrun. 

Lögreglan reyndi ekki að endurskapa atburðarás aðfaranætur laugardagsins 14. júní, að sögn Gríms, en leiðin sem talið er að Thomas, Nikolaj og Birna hafi farið, var oft keyrð.

Páll Rúnar spurði Grím hvers vegna skýrsla íslensks fingrafarasérfræðings hefði ekki verið í gögnum málsins. Grímur sagði að það hefði ekki verið nein sérstök ástæða fyrir því. Íslenski fingrafarasérfræðingurinn taldi að fingrafarið sem fannst á ökuskírteini Birnu væri ónothæft. Norskir sérfræðingar komust að annarri niðurstöðu og sögðu að það væri fingrafar Thomasar.

Hringdi níu sinnum í starfsmann á English Pub

Ein þeirra sem gáfu skýrslu í morgun er kona sem vinnur á English Pub. Hún sagði að skipverjar á Polar Nanoq kæmu oft á barinn þegar þeir væru í landi. Hún hefði kynnst Nikolaj Olsen fyrir tveimur árum. Hún sagðist hafa séð á Snapchat að hann væri kominn í land og spurt hvort hann vildi ekki kíkja á sig.

Nikolaj og Thomas komu á English Pub þar sem þeir keyptu og drukku frekar mörg skot, sagði konan. Nikolaj hringdi níu sinnum í konuna aðfaranótt laugardagsins og fram á hádegi á laugardeginum en hún svaraði ekki. Hún sagði ekki algengt að gestir staðarins hringdu í sig og að Nikolaj hefði ekki gert það áður en í þetta skipti.