Umhverfisstofnun: Ekki þvo bílinn heima

18.05.2017 - 17:57
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Ryk mengað af þungmálmum, krabbameinsvaldandi efni og nanoefni geta komist út í náttúruna þegar bílar eru þvegnir. Umhverfisstofnun hvetur fólk til að nota minna af sápuefnum og þvo bílinn frekar á bílaplönum en heima við. Engin þvottastöð á Íslandi er merkt með umhverfismerkinu Svaninum.

Fólk sem ætlar að þvo bílinn sinn ætti að hafa það í huga að það er betra að gera það á bílaplani heldur en heima því þar eru síur sem taka við óæskilegum efnum. Slíkar síur eru yfirleitt ekki við heimahús.  

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Páll Kolka, sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun

Rykið er mengað

Páll Kolka, sérfræðingur á Umhverfisstofnun segir að rykið á bílunum sé mengað af þungmálmum og flest efni, sem notuð eru til að þvo bíla, eru líka mengandi.   

„Það er til dæmis orðið algengt núna að nanoefni séu notuð í bón og þau geta haft ýmsar ófyrirséðar afleiðingar þegar þau komast út í náttúruna.  Svo eru þetta efni sem eru krabbameinsvaldandi og eru mjög þrávirk, þrávirk í umhverfinu, safnast fyrir í lífverunum sem lifa í vatninu.“

Páll segir að lykillinn að umhverfisvænum bílaþvotti sé sá sami og almennt í umhverfismálum, það er að nota minna af efnum og hugsa: „Þarf ég að nota þvottaefni í hvert einasta skipti?“ 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Fann ekki umhverfisvæna bílaþvottasápu

Páll segir að sextán bílaþvottaefni merkt umhverfismerki Svansins séu skráð á Íslandi.
 
„Ég veit ekki hverjir selja þau. Okkur hefur ekki tekist að finna þau en þau eru á markaði.“

Til samanburðar má geta þess að yfir 400 bílaþvottaefni merkt Svaninum eru í Svíþjóð.

„Þannig að þetta er ekki spurning um að þau séu ekki til heldur er þetta spurning um að það vantar þrýsting frá neytendum og fyrirtækjum til  að fá þau flutt til landsins.“ 

Engin Svansmerkt bílaþvottastöð

Bílaþvottastöðvar geta líka fengið umhverfisvottun. „Eru einhverjar stöðvar á Íslandi merktar með Svansmerki? Því miður höfum við ekki fundið fyrir áhuga frá íslenskum bílaþvottastöðvum til að fá Svansvottunina en ef einhver hefur áhuga á slíku þá tökum við alltaf vel á móti öllum sem vilja íhuga það að fá Svaninn í sinn rekstur.“

 

 

Bergljót Baldursdóttir
Fréttastofa RÚV