Umferð um Kringlumýrarbraut gekk sinn vanagang

Ekki varð vart við stórvægilegar tafir á umferð um Kringlumýrarbraut í morgun þrátt fyrir að framkvæmdir væru hafnar sem óttast var að gætu sett umferðina úr skorðum. Þegar fréttamaður RÚV var á vettvangi klukkan átta gekk umferðin þar nokkurn veginn sinn vanagang.

Fréttastofu bárust hins vegar ábendingar frá vegfarendum um að umferð um Reykjanesbraut hafi gengið óvenju hægt. Þeir gerðu því skóna að margir hefðu ákveðið að aka þá leið í morgun, vegna ótta við tafir á Kringlumýrarbraut sem í staðinn var greiðfærari en við var búist.

Undirbúningur hófst í gærkvöld að framkvæmdum við kaldavatnslögn á vegum Veitna, rétt sunnan við Miklubraut. Þá var þrengt að umferðinni og akreinum lokað. Áætlað er að framkvæmdirnar taki um tvær vikur.

Mynd með færslu
Stígur Helgason
Fréttastofa RÚV
Mynd með færslu
Jóhann Bjarni Kolbeinsson
Fréttastofa RÚV