Umfangsmiklar aðgerðir til minnka rusl

20.01.2016 - 12:14
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Borgarstjórnin í Reykjavík hefur samþykkt umfangsmiklar aðgerðir til þess að minnka rusl og auka endurvinnslu. Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir borgarfulltrúi Framsóknar- og flugvallarvina gagnrýnir að kostnaður af aðgerðunum liggi ekki fyrir.

Aðgerðaáætlun borgarinnar í úrgangsmálum er í fjörutíu og tveimur liðum og gildir til 2020. Markmiðið með henni er meiri flokkun og minni úrgangur í nokkrum skrefum.

Þegar er byrjað að safna plasti frá heimilum í grænar tunnur og ætlar borgin að koma um 2.400 tonnum af plasti á ári í endurvinnslu í stað þess urða það. Þá verður hrundið af stað átaki gegn umbúðanotkun og Reykvíkingar fá fræðslu og hvatningu til að stunda heimajarðgerð. Enn fremur verður niðurgröfnum grenndarstöðvum komið fyrir á fjölförnum stöðum og komið á glersöfnun á grenndarstöðvum.

Nokkuð heitar umræður voru um málið í borgarstjórn í gær. Minnihlutinn sat hjá við afgreiðslu þess og gagnrýndi Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir borgarfulltrúi Framsóknar- og flugvallarvina að verið væri að samþykkja áætlun án þess að kostnaður af henni lægi fyrir.

„Við erum ekki að segja með því að sitja hjá að við séum á móti því sem þarna kemur fram. Þarna koma fram ýmsar aðgerðir sem eru mjög góðar en það er óábyrgt að okkar mati að samþykkja eitthvað þegar við vitum ekki hver kostnaðurinn er. Við vitum það öll að fjárhagsstaða borgarinnar er mjög slæm, þannig að það er mjög óeðlilegt að samþykkja kostnað bæði fyrir borgina og borgarbúa sem ekki ligggur fyrir hver er.“

 

Önnur nýmæli í aðgerðaráætluninni eru að boðið verður upp á að hirða heilmisúrgang úr niðurgröfnum tunnum, einkum þar sem byggð er þéttust. Þá fari borgin af stað með tilraunaverkefni þar sem lífrænum úrgangi er safnað við heimili og hann notaður í gas- og jarðgerð. Meðal annara aðgerða er að auka notkun á fjölnota bleyjum á stofnunum borgarinnar.

 

 

Valgeir Örn Ragnarsson
Fréttastofa RÚV