„Umfangsmestu sjúkraflutningar á mínum ferli“

11.08.2017 - 07:30
Mynd með færslu
 Mynd: Þórdís Arnljótsdóttir  -  RÚV
„Þetta eru umfangsmestu sjúkraflutningar sem ég hef tekið þátt í á mínum ferli,“ segir Styrmir Sigurðarson yfirmaður sjúkraflutninga hjá Heilbrigðisstofnun Suðurlands. 176 erlendir skátar voru fluttir í fjöldahjálparstöð í Grunnskólann í Hveragerði í gærkvöld og í nótt vegna líklegrar nórósýkingar sem upp kom í Útilífsmiðstöð skáta á Úlfljótsvatni.

Hjálparmiðstöð í Hveragerði

„Ég fékk fyrst veður af þessu milli klukkan 19 og 20 í gærkvöld, en tilkynning kemur til okkar kl.  20.45. Þá sendum við sjúkrabíl með lækni upp eftir,“ segir Styrmir.  „Þá kemur í ljós að að 26 krakkar er með einkenni sýkingar. Við ákveðum að virkja  viðbragðsstjórn. Fleiri greinast síðan með einkenni. Þá var í samráði við Rauða krossinn ákveðið að opna hjálparmiðstöð í Hveragerði, undirbúa komuna og senda rútur að Úlfljótsvatni til að sækja 176 manns. Ástandið var metið upp frá og krakkarnir voru ekki það illa haldnir að það var talið óhætt að flytja þá með rútum,“ segir Styrmir sem aldrei hefur lent í öðru eins að eigin sögn.

Aldrei flutt eins marga á starfsferlinum

„Ég hefi aldrei lent í að flytja eins marga í einu á mínum starfsferli. Í samráði við almannavarnir og smitsjúkdómalækni var ástandið á Úlfljótsvatni allan tíma metið og við vorum með mannskap allan tímann til að fylgjast með fólkinu. Ástandið brást ekki til hins verra, við þurftum ekki að flytja neinn á spítala.“

Enginn á sjúkrahús

„Við erum búnir að vaka yfir þessu í nótt.  Framkvæmdastjórn Heilbrigðisstofnunar Suðurlands ákveður í framhaldinu með morgninum, hvort leita þurfi í önnur umdæmi til að halda utan um ástandið. Ástandið er ekki það slæmt að leggja þurfi fólkið inn á sjúkrahús, en það verður metið að nýju með morgninum í samráði við heilbrigðisyfirvöld í öðrum umdæmum,“ segir Styrmir Sigurðarson.

Mynd með færslu
Kristján Sigurjónsson
Fréttastofa RÚV