Umfangsmesta heræfingin til þessa

18.02.2016 - 08:05
epa04823156 South Korean marines participate in an Amphibious Operation (AMPHOPS) during the annual exercises against a possible attack from North Korea, in Anmyeon Beach, Choongnam-province, 200 km southwest of Seoul, South Korea, 29 June 2015.  EPA/JEON
Frá heræfingu Suður-Kóreumanna og Bandaríkjamanna í fyrra.  Mynd: EPA
Mun fleiri bandarískir hermenn taka þátt í árlegri heræfingu í Suður-Kóreu í næsta mánuði, en gert hafði verið ráð fyrir eða um fjórum sinnum fleiri en í fyrra. Suðurkóreska fréttastofan Yonhap hafði þetta eftir Han Min-Goo, varnarmálaráðherra landsins, í morgun.

Hann sagði að 15.000 bandarískir hermenn tækju þátt í æfingunni, en 3.700 hafi tekið þátt í henni í fyrra. Han sagði að einnig myndu fleiri suðurkóreskir hermenn taka þátt í æfingunni í ár, sem sögð er verða hin umfangsmesta til þessa.

Mikil spenna hefur verið á Kóreuskaga undanfarnar vikur eftir kjarnorkutilraun og eldflaugarskot Norður-Kóreumanna. Fréttastofan AFP segir að spennan aukist jafnan við árlegar heræfingar Suður-Kóreumanna og Bandaríkjamanna og í aðdragandi þeirra í fyrra hafi Kim Jong-un, leiðtogi Norður-Kóreu, fyrirskipað hernum að búa sig undir stríð. 

Kristján Róbert Kristjánsson
Fréttastofa RÚV