Umdeilt framlag Úkraínu í Eurovision

22.02.2016 - 05:16
Lagið 1944 í flutningi Susönu Jamaladinovu, eða Jamala, verður framlag Úkraínu til Eurovision söngvakeppninnar í ár. Jamala er krímverskur Tatari, en lagið fjallar einmitt um meðferð Stalíns á Töturum.

Stalín flutti alla Tatara á brott frá heimasvæði sínu á Krímskaga árið 1944 og tróð þeim í lest austur til Mið-Asíu. Þúsundir létust á leiðinni eða fórust úr hungri á hrjóstrugum sléttum áfangastaðarins. Tatarar fengu ekki að snúa aftur á Krímskaga fyrr en á níunda áratugnum.

Textinn snertir ekki á núverandi hernaðarbrölti Rússa á Krímskaga, en reglur Eurovision banna texta með pólitískum skilaboðum. Vefsíða breska dagblaðsins Guardian hefur eftir Mustafa Jamilev, leiðtoga Tatara, að þó texti fjalli ekki um atburði dagsins í dag þá snerti hann á málefnum frumbyggja sem hafa þolað mikið óréttlæti.

Langamma Jamölu var á þrítugsaldri þegar hún, fjórir synir hennar og dóttir voru numin á brott á meðan eiginmaður hennar barðist með Sovétmönnum gegn nasistum. Eitt barnanna lést á leiðinni. Jamala segir það hafa verið erfitt að kalla ítrekað fram sárar minningar, en hún skilji nú að það hafi verið nauðsynlegt. Tatarar á Krímskaga þurfi á hjálp að halda.

Alþjóðasamfélagið viðurkennir ekki innlimun Rússa á Krímskaga og Sameinuðu þjóðirnar hafa fordæmt víðtæk mannréttindabrot gegn samfélagi Tatara.

Áður sent umdeilt lag til keppni

Georgía þurfti að breyta framlagi sínu árið 2009 eftir að lagið sem kosið var áfram þótti of pólitískt. Innan við ár var liðið frá hernaðarátökum milli Georgíu og Rússlands og texti lagsins var níð í garð Vladimirs Putins. Green Jolly, sem flutti framlag Úkraínu árið 2005, þurfti að breyta texta sínum sem voru hvatningarorð appelsínugulu byltingarinnar þar í landi.

 

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV