Um 50 þúsund bíða við landamæri Tyrklands

05.02.2016 - 20:02
Mynd með færslu
 Mynd: AP
Allt að fimmtíu þúsund Sýrlendingar hafa safnast saman við landamæri Tyrklands eftir árásir stjórnarhersins á borgina Aleppo. Flóttafólk í tugþúsundatali streymir nú að landamærunum.

 

Engum hefur verið hleypt yfir landamærin til Tyrklands. Tyrknesk yfirvöld segjast vinna að því að útvega fólkinu mat og skjól.

Talið er að allt að 70 þúsund almennir borgarar flýi nú hernað sýrlenska stjórnarhersins og loftárásir Rússa á borgina Aleppo, stærstu borg Sýrlands. Búið er að umkringja borgina og öllum leiðum til þess að koma þangað hjálpargögnum hefur verið lokað.

Hernaðurinn hefur orðið til þess að friðarviðræðum í Genf hefur verið frestað. John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna hefur krafist þess að Rússar hætti þegar loftárásum á Sýrland, en stjórnarandstaðan í Sýrlandi hefur sett það sem skilyrði fyrir þátttöku sinni í friðarviðræðunum. 

Þegar eru um tvær og hálf milljón sýrlenskra flóttamanna í Tyrklandi. Amnesty International hefur biðlað til Tyrkja að opna landamæri sín og hleypa fólkinu burt frá Sýrlandi.