Úkraínu settir afarkostir

01.04.2017 - 04:17
Mynd með færslu
EBU bannar Úkraínu að banna Rússum að taka þátt í Eurovision.  Mynd: Eurovision
Skipuleggjendur Eurovision söngvakeppninnar hafa gefið Úkraínu úrslitakosti. Annað hvort verður Rússlandi leyft að taka þátt í keppninni í Kænugarði í vor eða Úkraínu verður bönnuð þátttaka í keppninni næstu þrjú ár.

Úkraína bannaði í síðustu viku rússnesku söngkonunni Yuliya Samoilova að koma til landsins í þrjú ár vegna þess að hún kom til landsins gegnum Krímskagann, sem er undir yfirráðum Rússa. Keppnin fer fram þrettánda maí. 

Ingrid Deltenre, yfirmaður samtaka evrópskra sjónvarpsstöðva, EBU, sendi Volodymyr Groysman, utanríkisráðherra Úkraínu, bréf í síðustu viku þar sem hún segir bannið óásættanlegt. Haldi Úkraína banninu til streitu verði úkraínska ríkissjónvarpinu meinuð þátttaka í keppninni næstu ár. Jafnframt segir hún það ólíðandi að Eurovision sé notað sem peð í pólitísku tafli ríkjanna.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV
Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV