Uggur í sumarhúsaeigendum vegna óvissu

05.03.2016 - 12:25
Mynd með færslu
 Mynd: Laxárfélagið í Aðaldal
Stjórn Landssambands sumarhúsaeigenda ræðir í næstu viku á stjórnarfundi hæstaréttardóm sem sett gæti veiðirétt víða um land í uppnám. Framkvæmdarstjóri segir marga félagsmenn uggandi yfir stöðunni og tilfinninguna skrýtna að veiðiréttur sem fylgt hafi landi, jafnvel í áratugi, gætið orðið að engu. Sú staða gæti komið upp víða um land. Svo sem í Borgarfirði og á Suðurlandi.

Hæstiréttur dæmdi á fimmtudag að óheimilt hefði verið að skilja veiðirétt frá jörð í búrekstri. Þrátt fyrir að veiðiréttur hefði fylgt landspildu við Eystri-Rangá í tæp 90 ár og kveðið hefði verið á um það í kaupsamningi, þá hafi slíkt farið gegn þágildandi lögum sem sett voru 1923. Sama gæti átt við um fjölmargar sumarbústaða- og frístundajarðir víða um land.

Margar fyrirspurnir borist

„Það er búið að hringja mikið inn og velta fyrir sér hvað þetta gæti þýtt og nú þurfum við að átta okkur á því hversu stór vandinn gæti verið í rauninni,“ segir Sveinn Guðmundsson, framkvæmdarstjóri landssambands sumarhúsaeigenda. Stjórn sambandsins mun funda sérstaklega vegna þessa í næstu viku.

„Það liggur held ég fyrir nú þegar í dag að þetta gæti átt við Borgarfjörðurinn og víða á Suðurlandi, eins og við skynjum það. Við eigum eftir að fara betur yfir það. En þetta er líka víða annars staðar vitum við.“

Áratuga veiðiréttur að engu?

En hvernig horfir þetta við sumarhúsaeigendum? Að veiðiréttur sem fylgt hefur jörð, jafnvel svo áratugum skipti, gæti skyndilega að engu orðið?

„Þetta er náttúrulega mjög skrýtin upplifun. Að vera jafnvel að rækta upp í sumum tilvikum, jafnvel með sleppingum eða öðrum hætti og telja sig alltaf hafa átt þetta. Afleitt eða hvernig sem það er. Þá er auðvitað mjög skrýtin upplifun að það gæti allt verið farið með þessum dómi eins og þetta lítur út núna.“

Gæti leitt til málaferla

Magnús Óskarsson, lögmaður, sagði í samtali við fréttastofu í gær að dómurinn gæti jafnvel leitt til málaferla þar sem þess væri krafist að arður væri endurgreiddur sem ranglega hefði verið greiddur út úr veiðifélagi.

Að sama skapi má leiða að því líkur að slík málaferli gætu leitt til þess að eigendur jarða sem missi rétt gætu höfðað skaðabótamál vegna upphaflegu kaupanna.