Úganda: Glæpur að bólusetja ekki börn

25.03.2016 - 22:55
epa03792079 (FILE) A file photograph dated 01 August 2011 shows a Somali refugee boy crying as he receives a vaccination shot by Medecins Sans Frontieres (MSF) staff outside the Ifo camp, one of three camps that make up sprawling Dadaab refugee camp in
Þessi er ekki par hrifinn af framgöngu bólusetjara Lækna án landamæra.  Mynd: EPA  -  EPA FILE
Í Úganda eiga foreldrar hálfs árs fangelsi yfir höfði sér, láti þeir ekki bólusetja börn sín eins og mælt er fyrir um. Lög þessa efnis, sem samþykkt voru fyrr í mánuðinum, voru birt í gær. Samkvæmt lögunum þurfa börnin einnig að framvísa bólusetningarvottorði, til að fá að ganga í skóla. Sarah Achieng Opendi, heilbrigðisráðherra Úganda, segir markmið laganna að stuðla að því að stjórnvöld nái bólusetningarmarkmiðum sínum.

Nokkuð hefur verið um að foreldrar neiti að láta bólusetja börn sín í Úganda, og sértrúarsöfnuðinum 666, sem meðal annars leggur blátt bann við bólusetningum, hefur vaxið nokkuð fiskur um hrygg að undanförnu. Bólusetningarherferð heilbrigðisyfirvalda beinist gegn fjölda lífshættulegra sjúkdóma, þar á meðal mænuveiki og lömunarveiki.

Alþjóða heilbrigðismálastofnunin áætlar að um 70 af hverjum 1.000 börnum fæddum í Úganda deyi áður en þau ná fimm ára aldri. Opendi sagði fréttamanni breska ríkisútvarpsins að um 3% barna í landinu hafi ekki verið bólusett. Vitað er um dæmi þess að foreldrar feli börn sín, þegar starfsfólk bólusetningarátaksins fer um landið, einkum í fátækrahverfum. Nokkrir leiðtogar fyrrnefnds sértrúarsöfnuðar hafa verið handteknir vegna áróðurs þeirra gegn bólusetningum, en þeim sleppt jafnharðan aftur þar sem engin lög hafa náð yfir þá framgöngu - þar til nú. 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV