Tyrklandsstjórn yfirtekur málgagn andstæðinga

05.03.2016 - 01:13
Erlent · Evrópa · Tyrkland
epa05195317 A handout picture released by the Zaman Daily News shows Turkish riot police raid Zaman newspaper building as they disperse supporters of Fethullah Gulen Movement protest outside of Zaman newspaper as Turkish Police try to get inside for
 Mynd: EPA  -  ZAMAN DAILY NEWS
Tyrkneska lögreglan gerði húsleit á skrifstofum helsta málgagns stjórnarandstæðinga í kvöld, aðeins nokkrum klukkustundum eftir að dómstóll úrskurðaði að blaðið færi undir yfirráð stjórnvalda. Lögregla beitti táragasi gegn mótmælendum sem komu saman fyrir utan skrifstofurnar.

Dómstóll gaf enga ástæðu fyrir því að dagblaðið Zaman væri fært í hendur ríkisins. Fljótlega eftir dóminn þustu hundruð stuðningsmanna dagblaðsins að skrifstofum þess og mótmæltu yfirtökunni. Sevgi Akarcesme, ritstjóri dagblaðsins, segir í samtali við Reuters fréttastofuna að með yfirtökunni sé í raun ekkert fjölmiðlafrelsi eftir í Tyrklandi.

Zaman er tengt Hizmet hreyfingunni sem tyrknesk stjórnvöld líta á sem hryðjuverkahóp. Hreyfingin er undir stjórn klerksins Fethullah Gulen sem búsettur er í Bandaríkjunum. Gulen var áður bandamaður Recep Tayyip Erdogans, forseta Tyrklands. Vinskapurinn slitnaði árið 2013 þegar Erdogan sakaði Gulen um samsæri gegn sér. Þá var gerð rannsókn á spillingu í innstu röð Erdogans. Forsetinn taldi lögreglumennina og saksóknara sem stóðu að rannsókninni vera bandamenn Gulens.