Tyrkir íhuga innrás í Sýrland ásamt S-Aröbum

14.02.2016 - 00:26
epa05137284 Syrians stand next to the wreckage of a vehicle at the site of bombing in the district of al-Sayeda Zainab in southern Damascus, Syria, 31 January 2016. Reports state at least 45 people were killed in three blasts near the Shiite shrine of al
Það er sama hvert farið er í Sýrlandi, hvergi er öruggt skjól að hafa. Þessi mynd er tekin í Damaskus í janúar á þessu ári, eftir sprengjuárás sem talið er að liðmenn samtakanna sem kenna sig við íslamskt ríki hafi framið.  Mynd: EPA
Tyrkir gerðu í dag sprengjuárásir á bækistöðvar Kúrda í Norður-Sýrlandi og krefjast þess að þeir yfirgefi landsvæðið sem þeir hafa á valdi sínu hið snarasta, ella muni árásir verða hertar enn. Forsætisráðherra Tyrklands, Ahmet Davutoglu, segir Tyrki vera að velta fyrir sér þeim möguleika að hefja landhernað gegn Kúrdum í Sýrlandi með þátttöku Sádi-arabískra hersveita. Bandaríkjamenn leggja hart að Tyrkjum að hætta árásum á Kúrda og einbeita sér frekar að stríðinu við Íslamska ríkið.

Á fimmtudag samþykkti fjöldi ríkja og ríkjasambanda það sem kallað var hlé á átökum í Sýrlandi, á fjölþjóðlegum fundi um öryggismál, sem haldinn er í München. Síðan þá fjölgar þeim hins vegar stöðugt sem lýsa því yfir og sýna í verki að þeir hafi engan hug á að virða það samkomulag. Þetta síðasta útspil Tyrkja dregur enn úr þeim litlu vonum sem bundnar voru við samkomulagið.