Tyrkir hóta að skjóta áfram á Kúrda

24.02.2016 - 04:28
epa04817876 Turkish soldiers guard near Turkish-Syria border line after renewed attack by Islamic State in Kobane, Syria, 25 June 2015. According to media reports, Islamic State jihadists once again advanced into the town of Kobane in northern Syria after
Tyrkneskir hermenn við landamæri Sýrlands  Mynd: EPA
Tyrkir eru ekki bjartsýnir á að boðað vopnahlé í Sýrlandi haldi, og heita því að halda sjálfir áfram árásum á sveitir sýrlenskra Kúrda ef með þurfi. Bandaríkjamenn og Rússar tilkynntu á mánudag að samkomulag hefði náðst milli nokkurra af helstu deilendum í Sýrlandi um að láta af öllum hernaði nema gegn sveitum Íslamska ríkisins og al Nusra, Sýrlandsarmi al Kaída.

Bæði Sýrlandsstjórn og talsmenn helstu stjórnarandstöðusveita hafa heitið því að beina kröftum sínum eingöngu að fyrrnefndum, sameiginlegum óvinum, þótt báðir aðilar hafi lýst sig nokkuð vantrúaða á heilindi hins. Tyrkir ganga enn lengra í tortryggni sinni.

Numan Kurtulmus, varaforsætisráðherra Tyrklands, sagðist á fréttamannafundi fagna vopnahléssamkomulaginu en svartsýnn á að það yrði virt. Einkum efaðist hann um að sýrlenskir Kúrdar í hinum vopnuðu Þjóðvarðarsveitum kæmu til með að halda aftur af sér og sagði Tyrki áskilja sér allan rétt til að svara í sömu mynt ef á þá yrði skotið og verja þannig fullveldi sitt.

Tyrknesk stjórnvöld halda því fram að Þjóðvarðarsveitin, vopnaður armur Lýðræðislega samstöðuflokksins, sé í raun ekki annað en sýrlenskur armur hins tyrkneska Verkamannaflokks Kúrda, PKK, sem hefur átt í áratugalöngum skæruhernaði við Tyrki. Þá saka þeir Kúrdana um að leggjast á eitt með Rússum og Sýrlandsstjórn, jafnvel þótt vestræn ríki telji þá til sinna mikilvægustu bandamanna í Sýrlandi.

Kurtulmus lýsti einnig efasemdum um að Rússar kæmu til með að virða vopnahléð og sagðist óttast að þeir myndu einfaldlega halda áfram loftárásum sínum í Sýrlandi, hvað sem þessu samkomulagi liði.