Tvö brons í hundrað metra skeiði

Mynd með færslu
Svavar Örn Hreiðarsson á Heklu frá Akureyri.  Mynd: Gísli Einarsson  -  RÚV
Íslenska landsliðið í hestaíþróttum náði í tvö brons í hundrað metra skeiði á Heimsmeistaramóti íslenska hestsins í Hollandi í morgun.

Svarvar Örn Hreiðarsson á Heklu frá Akureyri varð þriðji í flokki fullorðinna á tímanum 7.53. Í öðru sæti varð Markus Albrecht Schoch, Sviss, á Kóngi frá Lækjarmóti, sá hinn sami og sigraði í 250 metra skeiði í gær. 

Tími hans var 7.49. Nýr heimsmeistari í hundrað metra skeiði er síðan Charlotte Cook frá Bretlandi á Sælu frá Þóreyjarnúpi á tímanum 7.43. Cook vann silfur í 250 metra skeiðinu í gær og eru þetta fyrstu verðlaun Breta á heimsmeistaramóti íslenska hestsins frá upphafi.  Ævar Örn Guðjónsson, á Vöku frá Sjávarborg varð sjötti á tímanum 6.63.

Í ungmennaflokki varð Konráð Valur Sveinsson á Sleipni frá Skör í þriðja sæti og er hann þar með kominn með þrennu fyrir skeið á þessu móti, gull í gæðingaskeiði, silfur í 250 metra skeiði og nú brons fyrir 100 metra skeið. Konráð fór brautina á tímanum 6.68.

Í öðru sæti varð  hin sænska Elise Harryson á Lilju från Horshaga á tímanum 7,62 en Lona Sneve frá Noregi, á Stóra Dímon frá Hraukbæ sigraði með yfirburðum, fór á 7,38 sekúndum sem var meira að segja betra tími en hjá sigurvegaranum í flokki fullorðinna.

Mynd með færslu
RÚV ÍÞRÓTTIR