Tveir stungnir með hnífi í Kaupmannahöfn

13.08.2017 - 05:43
Mynd með færslu
 Mynd: politi.dk
Tveir ungir menn voru stungnir með hnífi í Kaupmannahöfn að kvöldi laugardags. Líklegt þykir að báðar árásir tengist blóðugu uppgjöri glæpagengja sem staðið hefur yfir í borginni um nokkra hríð. 22 ára karlmaður leitaði aðhlynningar á Bispebjerg-spítalanum á áttunda tímanum í gærkvöldi, en hann hafði hlotið svöðusár þegar lagt var til hans með hnífi.

Thomas Tarpgaard, varðstjóri í Kaupmannahafnarlögreglunni, segir í samtali við danska ríkisútvarpið, DR, að lögregla sé ekki allskostar viss um hvar ráðist var á unga manninn, en reikni með að það hafi verið í einhverjum þeim hverfum, sem lögregla hefur undir smásjá þessa dagana. „Okkar mat er að þetta sé angi af gengjastríðinu,“ sagði Tarpgaard.

Seint á níunda tímanum barst lögreglu svo tilkynning um að sautján ára unglingspiltur hefði verið stunginn með hnífi við Suðurhöfnina. Grunur er uppi um að sá verknaður tengist líka gengjastríðinu. Það á einnig við um skotárás á Norðurbrú í gærkvöld. Tveir menn særðust í árásinni. Enginn þeirra fjögurra sem ráðist var á í gærkvöld eru í lífshættu og enginn hefur verið handtekinn vegna árásanna. 
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV