Tveir sigrar í röð hjá Adam Scott

07.03.2016 - 10:15
epa05003036 Adam Scott of Australia during round two of the Golf PGA Tour, CIMB Asia Pacific Classic tournament in Kuala Lumpur, Malaysia, 30 October 2015.  EPA/FAZRY ISMAIL
Adam Scott verður ekki með í Ríó.  Mynd: EPA
Ástralinn Adam Scott stóð uppi sem sigurvegari á Cadillac Championship mótinu á Heimsmótaröðinni í golfi í gærkvöld. Þetta er annað mótið í röð þar sem Scott stendur uppi sem sigurvegari en hann fagnaði einnig sigri á Honda Classic mótinu á PGA-mótaröðinni fyrir rúmri viku.

Scott, sem er 35 ára gamall, lék samtals á 12 höggum undir pari og varð einu höggi betri en Bandaríkjamaðurinn Bubba Watson sem varð í öðru sæti. Norður-Írinn Rory McIlory var í forystu fyrir lokahringinn en lék illa í gær og hafnaði í þriðja sæti á samtals 10 höggum undir pari. Hann deildi þriðja sætinu ásamt Englendingum Danny Willett.

„Þú verður að leggja svo hart að þér til að hafa betur gegn þessum frábæra hópi kylfinga. Ég trúi því varla að ég hafi unnið tvö mót í röð. Að vinna þetta mót er stór áfangi fyrir mig. Ég ætla að halda áfram á þessum nótum,“ sagði Scott eftir sigurinn í gær.

Þrátt fyrir mörg flott tilþrif á Doral golfsvæðinu í gær þá setti Ástralinn Steven Bowditch vafasamt mótsmet. Ástralinn lék á 84 höggum í gær og hringina fjóra í mótinu á samtals á 37 höggum yfir pari. Það er sjaldséð að kylfingar leiki á svo slæmu skori á PGA-mótaröðinni og ljóst að Bowditch hefur ekki verið á boltanum um helgina.

Lokastaðan í mótinu

Mynd með færslu
Jón Júlíus Karlsson
íþróttafréttamaður