Tveir í lífshættu eftir skotárás í Malmö

13.08.2017 - 07:25
Mynd með færslu
 Mynd: SVT
Þrír ungir karlmenn særðust, þar af tveir lífshættulega, þegar maður réðist inn í samkomusal í Malmö í morgunsárið og hóf þar skothríð. Um 70 manns voru samankomin í veislusal við Ystadveg í Malmö, í samkvæmi sem byrjaði í gærkvöld og stóð fram á morgun. Fréttamaður sænska ríkissjónvarpsins, SVT, hefur eftir vitnum að mikil skelfing hafi gripið um sig þegar skothríðin hófst og fólk flúið í ofboði út undir bert loft.

Dagblaðið Sydsvenskan, sem er með ritstjórnarskrifstofur sínar í Malmö, hefur eftir sjónarvottum að ókunnur maður hafi ruðst inn í salinn í morgunsárið, hafið byssu á loft og hrópað „Hver lamdi bróður minn?" og byrjað að skjóta á veislugesti í salnum. Eitt vitni segir skotin hafa verið fimm eða sex.

Samkvæmt heimildum Sydsvenskan gerðist þetta í framhaldi af slagsmálum tveggja manna utan við samkomuhúsið skömmu áður. Annar þeirra sem þar tókust á mun hafa verið gestur í samkvæminu en hinn utanaðkomandi. Skömmu eftir að slagsmálunum lauk ruddist byssumaðurinn inn í salinn og hóf skothríð með fyrrgreindum hætti og hraðaði sér síðan af vettvangi, að sögn vitna. Lögregla og sjúkralið fjölmennti á vettvang skömmu síðar.

Samkvæmt SVT og Sydsvenskan er ekki vitað nákvæmlega hversu alvarlegir áverkar hinna særðu eru á þessari stundu, en heimildir Sydsvenskan herma að þeir séu milli heims og helju. Þeir eru 20 og 25 ára gamlir. Sá þriðji, sem hlaut minni áverka, er á táningsaldri.

Veislugestir voru í miklu uppnámi eftir árásina og margir í losti, samkvæmt frétt Sydsvenskan. Þegar þessi frétt er skrifuð hefur enginn verið handtekinn og engar vísbendingar hafa enn komið fram sem gagnast lögreglu við leitina að byssumanninum. Umfangsmikil rannsókn stendur yfir á vettvangi.

Nokkrar skotárásir hafa verið gerðar í þessu hverfi síðustu misseri, segir í frétt SVT, og ungur maður var skotinn utan við þetta sama samkomuhús fyrr á þessu ári. Hann særðist lífshættulega en það varð honum til lífs, að hann var íklæddur skotheldu vesti. 
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV