Tveir fyrrum Brasilíuforsetar formlega ákærðir

epa05215415 (FILE) A file picture dated 07 August 2014 of then Brazilian President and candidate for re-election, Dilma Rousseff (L) next to her predecesor as President Luiz Inacio Lula Da Silva (R) during an event with representatives of the six major
Dilma Rousseff og forveri hennar, Lula da Silva, á kosningafundi skömmu fyrir endurkjör Rousseff árið 2014.  Mynd: EPA  -  EPA FILE
Ríkissaksóknari Brasilíu birti í gær tveimur fyrrverandi forsetum landsins ákæru vegna skipulagðs og umfangsmikils fjárdráttar. Eru þau Dilma Rousseff og Luiz Inacio Lula da Silva, almennt nefndur Lula, sökuð um að hafa staðið fyrir samsæri um að draga sér og sínum stórfé úr sjóðum ríkisolíurisans Petrobras um margra ára skeið.

Í tilkynningu frá embætti ríkissaksóknara segir að talið sé að fjárdrátturinn hafi staðið yfir að minnsta kosti frá miðju ári 2002 til 12. maí, 2016, en þá var Rousseff vikið úr forsetaembættinu eftir að þingheimur samþykkti að ákæra hana fyrir brot í embætti. Fram kemur að þau Rousseff og Lula og Verkamannaflokkurinn sem þau leiddu séu talin hafa þegið að minnsta kosti sem nemur 50 milljörðum króna í mútur á þessu tímabili, sem sóttir voru í sjóði fyrirtækja og stofnana í eigu ríkisins, þar á meðal Petrobras, Þróunarbanka Brasilíu og ráðneytis skipulagsmála.

Rodrigo Janot, ríkissaksóknari, lætur að því liggja að flestir þræðir þessa umfangsmikla mútu- og fjárdráttarmáls, sem kennt er við Bílaþvottastöð og nú er orðið að fjölþjóðlegu fjármála- og spillingarhneyksli, hafi verið í höndum Lula. Tugir háttsettra stjórnmála- og embættismanna í Brasilíu og fleiri ríkjum Mið- og Suður-Ameríku eru flæktir í þetta víðfeðma net, og það eru fjölmargir forstjórar og aðrir þungavigtarmenn í einkageiranum líka. Hundruð milljarða króna hafa skipt um hendur með ólögmætum hætti í þessi spillingarfeni, að því að talið er.

Lula hefur þegar verið sakfelldur fyrir að misfara með opinbert fé, í einum anga af þessu máli. Hann hefur áfrýjað þeim dómi og stefnir ótrauður á að bjóða sig fram til forseta í næstu kosningum, sem fram fara á næsta ári.