Tveir féllu í óeirðum í Kenía

12.08.2017 - 10:09
Að minnsta kosti tveir voru skotnir til bana í mótmælaaðgerðum í Kenía í nótt. Tilkynnt var í gærkvöld að Uhuru Kenyatta hefði sigrað í forsetakosningunum á þriðjudag. Stjórnarandstæðingar eru sannfærðir um að brögð hafi verið í tafli.

Mótmæli blossuðu upp í höfuðborginni Naíróbí, borginni Kisumu og víðar eftir að kjörstjórn tilkynnti að Uhuru Kenyatta hefði sigrað Raila Odinga, mótframbjóðanda sinn með rúmlega 54 prósentum greiddra atkvæða gegn 44. Greint var frá því í morgun að tveir hefðu verið skotnir til bana í nótt. Fjórir til viðbótar eru á sjúkrahúsum með skotsár. Mótmæli stóðu í alla nótt og fram á morgun í nokkrum hverfum í Naíróbí þar sem andstæðingar Kenyatta forseta eru fjölmennir. Kveikt var í hjólbörðum og rusli og brotist inn í verslanir þar sem varningi var rænt.

Úrslitunum var einnig fagnað víða um Kenía í gærkvöld og nótt. Sums staðar fór gleðin úr böndunum. Yfirmaður í umferðarlögreglunni greindi frá því í dag að fjórir hefðu látið lífið þegar þeir urðu fyrir bílum í gleðilátunum.

Fyrirfram var búist við óeirðum þegar úrslitin yrðu kynnt. Fjölmennt lið óeirðalögreglumanna var því hvarvetna á ferð í Naíróbí albúið hinu versta. Fyrir tíu árum tapaði Raila Odinga einnig fyrir Uhuru Kenyatta í forsetakosningum. Þá féllu yfir ellefu hundruð manns í mótmælaaðgerðum og sex hundruð þúsund hröktust að heiman.

 

Mynd með færslu
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV