Tveir barnaníðingar fengu uppreist æru í fyrra

30.08.2017 - 17:08
Mynd með færslu
 Mynd: RUV
Af þeim fimm sem fengu uppreist æru 2016 höfðu fjórir fengið dóm fyrir kynferðisbrot, tveir fyrir kynferðisbrot gegn börnum og tveir fyrir nauðgun. Fimmti einstaklingur hlaut dóm fyrir fíkniefnabrot. Sá sem lengsta dóminn hlaut, var Hjalti Sigurjón Hauksson, en hann hlaut fimm og hálfs árs fangelsisdóm fyrir gróf kynferðisbrot gegn stjúpdóttur sinni.

Sá sem næstlengsta dóminn hlaut var Robert Downey, áður Róbert Árni Hreiðarsson, en hann hlaut þriggja ára dóm fyrir kynferðisbrot gegn fjórum stúlkum.

Einstaklingarnir tveir, sem voru með nauðgunardóma á bakinu, fengu báðir tveggja ára fangelsisdóm fyrir nauðgun. Fimmti einstaklingurinn hlaut 18 mánaða dóm fyrir fíkniefnabrot. Fréttastofu er ekki kunnugt um nöfn þeirra.

Mál Roberts Downey hefur mikið verið til umfjöllunar en hann er lögmaður að mennt og hefur Hæstiréttur úrskurðað að hann geti sóst eftir því að fá réttindi sín aftur. Eftir því sem fréttastofa kemst næst hefur hann ekki sótt um það til Lögmannafélagsins enn.

Braut gegn stjúpdóttur sinni nær daglega í 12 ár

Nafn Hjalta Sigurjóns kom upp fyrir helgi þegar Stundin greindi frá því að hann hefði verið einn þeirra sem hlutu uppreist æru, sama dag og Robert, það er 16. september 2016. Hjalti braut gróflega gegn stjúpdóttur sinni, nær daglega, frá því hún var fimm til sex ára og þar til hún náði 18 ára aldri.

Í dómi héraðsdóms segir að Hjalti Sigurjón hafi gerst sekur um grófa kynferðislega misnotkun gagnvart stjúpdóttur sinni í langan tíma og misnotað freklega vald sitt yfir henni sem stjúpfaðir hennar. Hann hafi brugðist trausti hennar og trúnaðarskyldu sinni gagnvart henni og höfðu brotin djúpstæð áhrif á líf stúlkunnar og sálarheill.

Hjalti Sigurjón sagði í samtali við Stundina að hann hafi verið rekinn úr vinnu 13 sinnum. Hann kærði aðstandendur síðunnar Stöndum saman, árið 2013, fyrir að birta upplýsingar um sig, að því er fram kemur í umfjöllun Stundarinnar.

Athugasemd ritstjórnar: Fyrir mistök var gerð breyting á mynd sem birtist með þessari frétt og vörumerki á bol afmáð. Myndin hefur nú verið færð í fyrra horf.