Tveir á sjúkrahús eftir árekstur í Víkurskarði

20.02.2016 - 23:29
Mynd með færslu
Bíll á ferð í Víkurskarði í morgun. Hvíti liturinn er algengur nyrðra.  Mynd: RÚV/Ágúst Ólafsson
Tveir voru fluttir með sjúkrabíl á fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri eftir árekstur fólksbíls og snjóruðningstækis í Víkurskarði á tíunda tímanum í kvöld. Að sögn lögreglunnar á Akureyri eru þeir talsvert slasaðir en þó ekki lífshættulega. Klippa þurfti fólksbílinn til þess að ná öðrum hinna slösuðu úr honum. Slæmt veður er á svæðinu og er vegurinn að verða ófær að sögn lögreglu.

Snjóruðningstæki bíður á vettvangi til þess að aðstoða lögreglu við að komast burt, en að því loknu má búast við því að veginum verði lokað. Bílarnir sem lentu í árekstrinum verða skildir eftir í vegkantinum þar til veður gengur niður á morgun.

 

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV