Tveimur ákæruliðum vísað frá

03.10.2011 - 15:41
Landsdómur hefur hafnað beiðni Geirs H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, um að máli gegn honum verði vísað frá. Tveimur fyrstu ákæruliðunum var hins vegar vísað frá dómi. Lögmaður Geirs fór þessa á leit 5. september síðast liðinn en landsdómur kvað í dag upp þann úrskurð sinn að beiðni um frávísun skyldi hafnað.

Fyrri ákæruliðurinn sem um ræðir gekk út á að Geir hefði „sýnt af sér alvarlega vanrækslu á starfsskyldum sínum sem forsætisráðherra andspænis stórfelldri hættu sem vofði yfir íslenskum fjármálastofnunum og ríkissjóði, hættu sem honum var eða mátti vera kunnugt um og hefði getað brugðist við með því að beita sér fyrir aðgerðum, löggjöf útgáfu almennra stjórnvaldsfyrirmæla eða töku stjórnvaldsákvarðana á grundvelli gildandi laga í því skyni að afstýra fyrirsjáanlegri hættu fyrir heill ríkisins," eins og segir í ákærunni.

Í seinni ákæruliðnum var Geir gefið að sök að hafa „látið undið höfuð leggjast að hafa frumkvæði að því, annaðhvort með eigin aðgerðum eða tillögum um þær til annarra ráðherra, að innan stjórnkerfisins væri unnin heildstæð og fagleg greining á fjárhagslegri áhættu sem ríkið stóð frammi fyrir vegna hættu á fjármálaáfalli.“

Einn dómari, Ástríður Grímsdóttir, vildi vísa málinu í heild sinni frá dómi þar sem hún taldi að Sigríður J. Friðriksdóttir saksóknari væri vanhæf vegna fyrri aðkomu sinnar að málinu, meðan það var enn í meðförum þingnefndar.

Geir vildi fá málinu frá og vísaði lögmaður hans til fimm atriða í rökstuðningi sínum fyrir því. Í fyrsta lagi væri rannsókn málsins verulegum annmörkum háð. Því hafnaði Landsdómur. Í öðru lagi væri saksóknari vanhæfur til að fara með málið, því hafnaði Landsdómur, en einn dómari skilaði séráliti þar um. Í þriðja lagi sagði lögmaður Geirs að ákæran væri vanreifuð. Landsdómur féllst á þetta með ákæruliði 1.1 og 1.2 sem var vísað frá en taldi aðra skýra og hafnaði því að vísa þeim frá. Lögmaður Geirs sagði í fjórða lagi að ekki væri tryggt að umbjóðandi sinn fengi réttláta málsmeðferð vegna óljóstra reglna um aðdraganda, undirbúning og rekstur málsins fyrir Landsdómi. Því hafnaði Landsdómur. Fimmta og síðasta atriðið sem lögmaður Geirs nefndi var að ekki hefði veriði gætt að 65. grein stjórnarskrárinnar með því að höfða mál eingöngu gegn ákærða. Það er jafnræðisregla stjórnarskrárinnar og hún hljómar svo. „Allir skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti. Konur og karlar skulu njóta jafns réttar í hvívetna.“ Landsdómur hafnaði þeim rökum og sagði að þingmönnum hefði verið heimilt að kjósa að sækja Geir til sakar en ekki hinum þremur ráðherrunum sem þingmannanefnd sem fór yfir skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis mælti með að yrðu stefnt.

Aðrir ákæruliðir standa óhaggaðir. Í ákærulið 1.3 var Geir gefið að sök að hafa „vanrækt að gæta þess að störf og áherslur samráðshóps stjórnvalda um fjármálastöðuglegika og viðbúnað, sem stofnað var til á árinu 2006, væru markvissar og skiluðu tilætluðum árangri“. Honum var einnig gefið að sök að hafa „vanrækt að hafa frumkvæði að virkum aðgerðum af hálfu ríkisvaldsins til að draga úr stærð íslenska bankakerfisins með því til að mynda að stuðla að því að bankarnir minnkuðu efnahagsreikning sinn eða einhverjir þeirra flyttu höfuðstöðvar sínar úr landi,“ samkvæmt ákærulið 1.4 og „að hafa ekki fylgt því eftir og fullvissað sig um að unnið væri með virkum hætti að flutningi Icesave-reikninga Landsbanka Íslands hf. í Bretlandi yfir í dótturfélag og síðan leitað leiða til að stuðla að framgangi þessa með virkri aðkomu ríkisvaldsins,“ samkvæmt ákærulið 1.5. Samkvæmt öðrum ákærulið var honum gefið að sök að hafa látið farast fyrir að halda ráðherrafundi um mikilvæg stjórnarmálefni þó sérstök ástæða hafi verið til þess á þremur tímapunktum á fyrri hluta árs 2008.

Úrskurð Landsdóms í heild sinni má lesa hér.