Tveggja ára í lífshættu vegna læknamistaka

18.05.2017 - 04:52
Mynd með færslu
 Mynd: Shutterstock
Mistök læknis og lyfjafræðings urðu til þess að tveggja ára stúlkubarn veiktist lífshættulega í síðustu viku. Talið er að rétt viðbrögð móður stúlkunnar og ömmu hafi bjargað lífi hennar. Fréttablaðið greinir frá þessu. Þar segir að telpunni, sem var með hlaupabólu, hafi verið ávísað banvænum skammti af ofnæmislyfi. Læknir hafi farið línuvillt í rafræna ávísanakerfinu og ávísað lyfinu í töfluformi í stað mixtúru. Skammturinn af virka efninu hafi því orðið þrettánfalt stærri en hann átti að vera.

Lyfjafræðingur apóteksins hafi ekki tekið eftir villunni og afgreitt lyfið athugasemdalaust. Eftir að móðir telpunnar gaf henni fyrstu þrjá skammta lyfsins í samræmi við fyrirmæli á umbúðum elnaði henni sóttin svo mjög að móðir hennar og amma höfðu af því þungar áhyggjur. Lásu þær þá fylgiseðilinn með lyfinu og uppgötvuðu að mistök höfðu verið gerð. Þær óku telpunni þá umsvifalaust á bráðamóttöku Landspítalans, þar sem hún fékk viðeigandi meðferð. Eftir fjögurra daga sjúkrahúsvist er hnátan nú komin heim til sín á ný og er á góðum batavegi.  

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV