Tugþúsundir vilja komast til Egyptalands

epa04769241 Palestinians wait for their relatives to cross from Egypt to the Gaza Strip on the Palestinian side at Rafah border crossing, in Rafah town in the southern Gaza Strip, 26 May 2015. Reports state that Egypt re-opened the border for two days
 Mynd: EPA
Landamæri Egyptalands og Gazasvæðisins hafa verið opin í gær og í dag. Stjórnvöld á Gaza hafa óskað eftir því að þau verði opin nokkra daga í viðbót þar sem tugþúsundir Palestínumanna þurfa að komast til Egyptalands.

Margir þurfa læknishjálp

Þetta er í fyrsta sinn á árinu sem Egyptar opna landamærin. Fjöldi fólks hefur safnast saman í bænum Khan Yunis í von um að komast yfir. Til stendur að loka landamærastöðinni aftur í kvöld. Talsmaður innanríkisráðuneytisins í Gazaborg hefur farið fram á það við stjórnvöld í Egyptalandi að fólk fái að fara á milli í nokkra daga í viðbót. Hann segir að 25 þúsund manns sem þurfi nauðsynlega að komast til Egyptalands hafi skráð sig. Þar af þurfa um 3.500 að leita sér lækninga.

Um 700 Palestínumönnum var leyft að fara um landamærin til Egyptalands í gær og álíka fjölda leyft að fara yfir til Gaza. Þeir hafa verið innlyksa í Egyptalandi frá því að landamærin voru opnuð síðast, fyrir sjötíu dögum.

Ástandið versnar stöðugt

Afar slæmt ástand er á Gazasvæðinu þar sem Ísraelsmenn hafa haldið því í herkví í níu ár. Efnahagsástandið versnar stöðugt og illa gengur að byggja upp hús sem skemmdust eða eyðilögðust í hernaðaraðgerðum Ísraelsmanna gegn íbúunum í hefndarskyni fyrir flugskeyti sem þeir hafa skotið yfir til Ísraels. Sameinuðu þjóðirnar lýstu því yfir í fyrra að Gazasvæðið yrði að líkindum orðið óhæft til búsetu árið 2020.